Home / Fréttir / NATO-ráðið fordæmir netárásir Rússa á Þjóðverja og Tékka

NATO-ráðið fordæmir netárásir Rússa á Þjóðverja og Tékka

Atlantshafsráðið, skipað fastafulltrúum 32 NATO-ríkja, sendi frá sér yfirlýsingu föstudaginn 3. maí til stuðnings Þjóðverjum og Tékkum vegna netárása sem gerðar voru annars vegar á þýska Jafnaðarmannaflokkinn, flokk Olafs Scholz kanslara, og hins vegar á ýmsar stofnanir í Tékklandi.

Um leið og ráðið lýsir samstöðu með stjórnvöldum Þýskalands og Tékklands er bent á að stjórnvöldin hafi sagt að APT28 beri ábyrgð á árásunum en leyniþjónusta rússneska hersins, GRU, standi að baki APT28. Jafnframt er í NATO-yfirlýsingunni sagt að áhyggjuefni sé að sömu þrjótar, APT28, hafi ráðist á opinbera aðila og kerfi mikilvægra grunnvirkja í öðrum NATO-löndum, til dæmis í Litháen, Póllandi, Slóvakíu og Svíþjóð.

NATO-ráðið fordæmir harðlega hvers kyns afbrot í netheimum í þeim tilgangi að grafa undan lýðræðislegum stofnunum, þjóðaröryggi og frjálsum samfélögum.

Netárásirnar á Þýskaland og Tékkland sýni að í netheimum sé stöðugt reynt að koma illu af stað. Netþrjótum sé mikið í mun að geta grafið undan stöðugleika í NATO.

Ráðið lýsir yfir því að NATO-ríkin hafi búið sig undir að geta mætt umtalsverðum, stöðugum og vaxandi tölvuógnum þar á meðal gegn lýðræðiskerfum og mikilvægum grunnvirkjum. Ríkin muni sjá til þess að fyrir hendi sé geta til fælingar, varna og gagnsóknar á öllum stigum netógna. Þau muni styðja hvert annað, meðal annars með því að íhuga samræmdar gagnaðgerðir.

Ríkin segjast vilja frjálsa, opna, friðsama og örugga netheima. Þau hvetja til þess að allar þjóðir, einnig Rússar, virði alþjóðlegar skuldbindingar og skyldur til að fara að alþjóðalögum og haga aðgerðum sínum innan þess ramma sem öll ríki Sameinuðu þjóðanna hafa heitið að virða í nafni ábyrgrar hegðunar einstakra ríkja.

 

 

 

Skoða einnig

Bardagareyndur hershöfðingi settur yfir rússnesku herstjórnina í norðvestri

Þriggja stjörnu hershöfðinginn Aleksandr Lapin var 15. maí skipaður yfirmaður Leningrad-herstjórnarsvæðisins í Rússlandi. Svæðið er …