
Varnarmálaráðherrar NATO-ríkjanna ákváðu á fundi sínum í Brussel miðvikudaginn 10. febrúar að auka enn hernaðarlegan viðbúnað og umsvif undir merkjum bandalagsins í austurhluta Evrópu. Markmiðið er að sýna Rússum að yfirgangsstefnu þeirra verði svarað af festu.
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, skýrði frá þessari niðurstöðu ráðherranna í lok fyrri dags tveggja daga fundar þeirra. Hann sagði að í ákvörðuninni fælist að senda hverjum sem vildi ögra bandalagsríkjunum skýr skilaboð að honum yrði mætt af þunga.
Um er að ræða fjölþjóðlegar hersveitir sem stunda æfingar í NATO-ríkjunum næst landamærum Rússlands. Í Frankfurter Allgeimene Zeitung sagði miðvikudaginn 10. febrúar að um væri að ræða hersveitir sem yrðu um kyrrt í löndum eins og Póllandi, Eistlandi, Lettlandi og Litháen.