Höfundur: Kristinn Valdimarsson
Sjaldan er fjallað um samstarf samtakanna tveggja Atlantshafsbandalagsins (NATO) og Evrópusambandsins (ESB) þó starfa bandalögin á sömu slóðum og það sem meira er þá eru aðeins um fimm kílómetrar á milli höfuðstöðva þeirra í Brussel.
Í nýrri grein í NATO Review, sem er tímarit Atlantshafsbandalagsins, er leitast við að útskýra samskipti samtakanna. Höfundur greinarinnar er Alexandros Papaioannou, starfsmaður á sviði stjórnmála og öryggismála í höfuðstöðvum NATO og gestaprófessor við College of Europe í Belgíu. Hann hefur starfað í grísku utanríkisþjónustunni.
Í upphafi greinarinnar er spurt hvers vegna tengslin séu mikilvæg. Greinarhöfundur segir að lykilatriðið sé að á báðum stöðum séu að mestu sömu ríki. Þetta þýðir m.a. að þegar aðildarríkin taka ákvarðanir er varða öryggi þeirra, t.d. um útgjöld til varnarmála, þá hafa þær áhrif bæði innan NATO og ESB. Reikna má með því að ákvarðanataka innan aðildarríkjanna sé svipuð enda eru þetta lýðræðisþjóðir er búa við markaðshagkerfi og leggja mikið upp úr mannréttindum og mikilvægi réttarríkis. Ekki skiptir minna máli að ríkin liggja nálægt hvort öðru og hafa áhyggjur af hættum í suðri og austri. Svipað gildismat aðildarríkjanna er annar hlekkur á milli ESB og NATO. Þriðja ástæða þess að mikilvægt er að bandalögin eigi í góðum samskiptum er að hvort um sig býr yfir sérþekkingu sem hægt er að samnýta þegar leysa þarf vandamál sem stefna öryggi aðildarríkjanna í hættu. Meginhlutverk NATO er að verja aðildarríkin gegn utanaðkomandi árás og því býr bandalagið yfir mikilli þekkingu á varnar- og öryggismálum. Evrópusambandið hefur aftur á móti einbeitt sér að efnahagslegri samvinnu aðildarríkjanna og býr yfir ýmsum ráðum er tengjast því sviði. Þar á meðal eru efnahagsþvinganir, mannúðaraðstoð, innviðauppbygging og net- og orkuöryggi.

Greinarhöfundur fjallar næst um hvernig samvinnu samtakanna sé háttað. Hann heldur því fram að hún snúist aðeins að hluta til um samskipti starfsmanna þeirra. Mikilvægara sé að skoða hana út frá því sjónarhorni að bandalögin vinni oft að sömu verkefnum þó stjórntækin sem þau ráði yfir séu ólík. Ástæðu þess að samtökin fást oft við sameiginleg öryggismál hefur þegar verið getið þ.e. gildi þeirra eru svipuð. Þau voru bæði stofnuð eftir lok síðari heimsstyrjaldarinnar og meginhlutverk þeirra beggja er að viðhalda friði í Evrópu. Höfundur nefnir nokkur dæmi um sameiginleg öryggisverkefni ESB og NATO. Eitt snérist um að viðhalda stöðugleika í Evrópu eftir hrun kommúnismans í álfunni. Bæði bandalögin komust að þeirri niðurstöðu að best væri að ná þessu markmiði með því að bjóða ríkjum Mið – og Austur -Evrópu aðild. ESB og NATO hafa líka bæði brugðist við því hættuástandi sem skapaðist í austurhluta álfunnar í kjölfar þess að Rússar innlimuðu Krímskaga og tóku að styðja aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu. Báðir aðilar vinna einnig að því að fækka vandamálum sem plaga íbúa norðanverðrar Afríku en þau eru meginástæðan fyrir flóttamannavandamálinu í Evrópu nú um stundir.
Í síðasta hluta greinarinnar fjallar höfundur um sögu samskipta ESB og NATO. Þrátt fyrir að bandalögin eigi ýmislegt sameiginlegt hafa samskiptin til skamms tíma verið takmörkuð. Samstarfið er rakið til 10. áratugar síðustu aldar. Árið 1993 skrifuðu leiðtogar ESB undir tímamótasamning í Maastricht í Hollandi en í honum voru gerðar miklar breytingar á skipulagi sambandsins. Meðal þess voru ákvæði um nánari samvinnu í varnarmálum. Leiðtogar sambandsins áréttuðu síðan vilja sinn til að vinna nánar saman á þessu sviði í samningi sem kenndur er við borgina Nice en hann var undirritaður árið 2001. Er ESB-ríkin juku samvinnu sína í varnarmálum vaknaði sú spurning hvaða áhrif það hefði á NATO enda hafði bandalagið tryggt öryggi í Vestur – Evrópu frá árinu 1949. Var í kjölfarið sett saman flókin samstarfsáætlun sem fékk heitið Berlín plús og samið var um árið 2003. Á hana reyndi nánast aldrei enda var hún reist á næsta úreltum hugmyndum.
Kröftum NATO og ESB var auk þess beint að stækkunarferli á þessum árum. Næstu ár þróuðust samskipti bandalaganna því lítið. Breyting varð á þessu árið 2014. Má þar nefna tvær ástæður. Í fyrsta lagi stóðu lýðræðisríki Evrópu nú frammi fyrir nýjum ógnum í suðri og austri og leiðtogar bandalaganna tveggja sáu að þetta kallaði á aukna samvinnu þeirra. Seinni ástæðan er sú að árið 2017 hóf ESB tvö verkefni sem styrkja varnarmátt sambandsins. Á ensku heita verkefnin Permanent Structured Cooperation (PESCO) og European Defence Fund (EDF). ESB-ríkin sem taka þátt í PESCO-samstarfinu (Danmörk, Malta og Bretland standa utan þess) stefna að því að auka samvinnu sína í varnarmálum. Ætla má að ríkin njóti góðs af EDF-sjóðnum en markmið hans er að efla rannsóknir, þróun og fjárfestingar á sviði varnarmála. Verkefnin tvö tengjast sérsviðum NATO og frá 2016 hafa NATO og ESB skipulega aukið samvinnu sín á milli.
Hvers vegna hafa ESB og NATO ekki unnið nánar saman í áranna rás? Ekki er fjallað um það í greininni í NATO Review. Í bókinni Defense of the West – NATO, The European Union and the Transatlantic Bargain eftir Stanley R. Sloan er svarið hins vegar að finna. Þar kemur fram að staða Kýpur sé meginástæða sambandsleysisins á milli ESB og NATO. Tæplega 80% Kýpverja eru Grikkir og um 20% landsmanna eru Tyrkir. Því var búið svo um hnúta þegar Kýpur öðlaðist sjálfstæði frá Bretum árið 1960 að landstjórnin skyldi vera í höndum beggja þjóðarbrotanna. Þetta gekk ekki og hófust deilur á milli þeirra. Studdu Grikkir og Tyrkir frændur sína á eyjunni. Árið 1974 stóð herforingjastjórnin í Aþenu fyrir valdaráni á Kýpur í þeim tilgangi að sameina eyjuna Grikklandi. Í kjölfarið gerðu Tyrkir innrás á eyjuna sem leiddi til þess að Kýpur var skipt í grískan hluta og tyrkneskan hluta. Þjóðarbrotin deila þó enn og Tyrkir og Grikkir deila einnig um framtíð eyjunnar. Þessar deilur hafa skaðað samskipti ESB og NATO en Grikkir og Kýpverjar eru í ESB og Grikkir og Tyrkir eru í NATO.
Í nýlegri grein á vefsíðu bandarísku hugveitunnar Atlantic Council sem ber heitið NATO membership for Cyprus. Yes Cyprus var fjallað um deilu Grikkja, Tyrkja og Kýpverja. Þar er nefnt að lausnin felist í að Kýpur verði boðin aðild að NATO. Annar kostur við það væri að aðild myndi bæta öryggisumhverfið við austanvert Miðjarðarhaf. Ýmsir glæpa- og hryðjuverkahópar nýta sér vandamál Kýpverja og stunda umfangsmikla glæpastarfsemi á eyjunni s.s. smygl, mannsal og peningaþvætti. Kýpur er einnig nálægt Sýrlandi þar sem hræðilegt borgarastríð geisar. Í Tartus í Sýrlandi er eina flotastöð Rússa við Miðjarðarhaf og væri Kýpur í NATO ætti bandalagið auðveldara með að hafa auga með henni.