Home / Fréttir / NATO og ESB mega ekki láta hlutina hafa sinn notalega vanagang

NATO og ESB mega ekki láta hlutina hafa sinn notalega vanagang

 

Alar Karis, Eistlandsforseti.

Hér er grein eftir Alar Karis, forseta Eistlands. sem birtist á vefsíðunni Politico mánudaginn 19. febrúar. Hún endurspeglar áhyggjur nágranna Rússa í öryggismálum.

Eftir Alar Karis, Eistlandsforseta.

Á auglýsingaskilti sem nýlega var sett upp í Ivangorod, rétt handan landamæra Eistlands að Rússlandi, stendur: „Granitsy Rossii nigde ne zakanchivayetsya“ — Landamæri Rússlands eru endalaus

Þetta skýrir til fulls ólíkt hugarfar og gildismat í Evrópu og Rússlandi.

Sem þjóðir mælum við árangur okkar með hagvexti og bættri félagslegri velferð. Rússar nota hins vegar heimsveldis-mælikvarða sem sýnir stækkun yfirráðasvæða og hernaðarmátt. Og við eigum í ævarandi baráttu milli ólíkra gilda vegna þess að austurlandamæri ESB að Rússlandi afmarka skilin á milli tveggja mjög ólíkra heima í hugsun og heimssýn.

Innrás Rússa í Úkraínu kom okkur ekki á óvart. Rússar leggja hald á allt sem er óvarið. Þess vegna megum við ekki láta neitt vera óvarið.

Það þýðir ekkert að velta því fyrir sér hvaða land gæti orðið fyrir árás næst, sagan hefur ítrekað sýnt að öll Evrópa gæti orðið næst, ef tækifæri gefst. Þess vegna eru Eistlendingar ötulir talsmenn stækkunar ESB og NATO.

Lýðræðið sjálft er ógn við núverandi stjórn Rússlands, þess vegna er sérhvert lýðræðisríki ógn við hana. Það er því tilgangslaust að reisa stefnu okkar á væntingum um að grundvallarbreytingar verði á næstunni í Rússlandi. Jafnvel þegar núverandi stjórn breytist – eins og gerist að lokum – mun afstaða Rússa til Vesturlanda verða óbreytt.

Menningarleg grunnviðhorf í landi sem hefur verið harkalega andstætt  Vesturlöndum umbreytist ekki á einni nóttu. Undirbúningur fyrir stríð er inngróinn í rússneska þjóðarsál. Og það er annaðhvort þaggað niður í þeim sem hugsa öðruvísi eða þeir eru brottreknir, áreittir, fangelsaðir og drepnir – eins og við höfum orðið vitni að nýlega, okkur til mikillar sorgar.

Þar að auki vill Vladimír Pútín Rússlandsforseti ekki aðeins leggja undir sig Úkraínu, hann lætur einnig reyna á staðfestu lýðræðisþjóðanna fyrir hönd annarra einræðisherra heimsins. Hann er líka í hernaði fyrir Norður-Kóreu og Íran – þess vegna styðja ríkin stríð hans.

Þetta er ögurstund fyrir okkar kynslóð. Ef okkur tekst ekki að sýna festu verður litið á okkur sem veiklynda. Og sagan hefur sýnt að veiklyndi leiðir ekki til friðar.

Bandalög fara lýðræðisríkjum best úr hendi. Einræðisstjórnum hefur aldrei verið fært að viðhalda þeim vegna þess að fyrir einræðisherra þjónar samvinna aðeins á skammtímaþörfum – ekki gildum.  Styrkur okkar sem búum við lýðræði er að þarna höfum við forskot.

Og nú er kominn tími til að nýta þetta forskot vel. Við þurfum að tryggja að gildi okkar – frelsi, lýðræði, velferð og öryggi – verði tryggð samfélagi þjóðanna beggja vegna Atlantshafs um ókomna tíð.

Sérhvert Evrópuríki ætti undir högg að sækja eitt gagnvart Rússlandi. Sameinuð erum við hins vegar ósigrandi. Rússland virðist risastórt — kjarnorkuveldi með nærri 145 milljónir íbúa. Það má þó ekki lama okkur. Það eru þrisvar sinnum fleiri íbúar í ESB og heildar landsframleiðsla okkar er um það bil 10 sinnum stærri en Rússa. Evrópsk lýðræðisríki, í djúpri samvinnu við ríkin handan Atlantshafs, eru nógu öflug til að tryggja frið án bardaga.

Til þessa hefur NATO tekist að halda Rússum í skefjum en við þurfum að leitast við að halda fælingarmætti bandalagsins jafnsterkum í framtíðinni. Ógnin af Rússum er ekki lengur framandi eða óhlutbundin, hún blasir við okkur. Þar fyrir utan eigum við öll nú þegar daglega í fjölþátta stríði við nágranna okkar í austri. NATO og ESB mega ekki láta hlutina hafa sinn notalega vanagang. Við þurfum að vera í takti við það sem gerist.

Til þess er nauðsynlegt að efla samstarf okkar. Saman verðum við að efla varnir NATO með því að festa áætlanir við sérstakar hersveitir, getu og herstjórnir. Og við verðum að æfa reglulega til að halda sameiginlegum viðbúnaði okkar þöndum og snörpum.

Sameiginlega getum við styrkt stöðu ESB í öryggismálum innan NATO. ESB sjálft og einstök aðildarlönd þess verða við auka framlög sín til varnarmála, efla evrópskan hergagnaiðnað okkar og styrkja herafla okkar. Sem öflugasta efnahagsbandalag heims hefur ESB gífurlegu hlutverki að gegna.

Ég styð hugmyndina um að koma á fót stöðu varnarmálastjóra í framkvæmdastjórn ESB og endurskoða varnarstefnu sambandsins. Ég styð breytingu á reglum Evrópska fjárfestingarbankans þar sem okkur er þörf á  fjármagni til að auka hergagnaframleiðslu. Og ég styð umtalsverða stækkun Evrópska friðarsjóðsins þar sem hann er eini sjóður ESB sem veitir hernaðarlegan stuðning við Úkraínumenn og samstarfsaðila okkar.

En þetta er ekki allt. Við þurfum líka að verja fé til að vernda ytri landamæri ESB betur. Og við verðum að sjálfsögðu að endurskoða mikilvægar aðfangakeðjur okkar til að auka viðnámsþol þeirra

Úkraínumenn geta unnið þetta stríð. Á áratug hefur sannast að fámenn þjóð getur staðist áreiti fjölmennari þjóðar ef vinir hennar veita aðstoð sína. Hér í Eistlandi höfum við reiknað út að leggi hvert Evrópuríki aðeins 0,25% af vergri landsframleiðslu sinni til Úkraínu á næstu árum, muni Úkraínumenn bera sigur úr býtum. Þá getum við afhjúpað þá blekkingu Rússa að þeir geti haldið áfram að berjast miklu lengur.

Málið snýst að lokum um hvort við höfum vilja til að stíga óumflýjanleg, nauðsynleg skref til að tryggja frelsi, velferð og öryggi komandi kynslóða. Við, vestrænar þjóðir, höfum áður sýnt að saman fögnum við sigri.

Úkraínumenn berjast við stjórn sem vill eyða þeim. Úkraína berst fyrir góðan málstað. Við skulum hjálpa Úkraínu að sigra.

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …