Home / Fréttir / NATO og ESB árétta samvinnu sína í öryggismálum

NATO og ESB árétta samvinnu sína í öryggismálum

Federica Mogherini, utanríkis- og öryggismálastjóri ESB og Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO.
Federica Mogherini, utanríkis- og öryggismálastjóri ESB og Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO.

Utanríkisráðherrar NATO-ríkjanna hafa setið á fundum í Brussel dagana 6. og 7. desember. Þriðjudaginn 6. desember ræddu þeir samstarf ESB og NATO og að fundinum loknum gáfu forseti leiðtogaráðs ESB, forseti framkvæmdastjórnar ESB og framkvæmdastjóri NATO út rúmlega 2000 orða yfirlýsingu um samstarf NATO og ESB.

Lögð er áhersla á náin öryggistengsl ríkja Evrópu og Norður-Ameríku og mikilvægi þeirra andspænis annars konar áskorunum en áður hafi blasað við ríkjunum í öryggismálum. Almenn markmið NATO og ESB séu þau sömu: að viðhalda friði og stöðugleika og stuðla að öryggi borgara aðildarlanda sinna.

Af 28 aðildarríkjum NATO eru 22 í ESB segir í ályktuninni og taka verði mið af því að hvert ríki ráði aðeins yfir „einu eintaki af herafla“. Í því ljósi er fagnað nánari samvinnu NATO og ESB báðum til styrktar.

Áréttað er að NATO sé samstarfsvettvangur ríkjanna beggja vegna Atlantshafs um öflugar sameiginlegar varnir og gegni lykilhlutverki til samráðs og töku ákvarðana um öryggismál aðildarríkjanna. Því er fagnað að unnið sé að því að styrkja evrópska stoð samstarfsins innan NATO sem aðeins verði til þess að styrkja bandalagið.

Tekið er fram að NATO-ríki utan ESB skipti verulegu máli fyrir öryggi í Evrópu og varnir almennt. Lögð er áhersla á mikilvægi þess að ríkin utan ESB séu virkir aðilar að öllu sem varðar varnir Evrópu.

Við þessa almennu yfirlýsingu um samstarf er síðan festur viðauki þar sem rædd eru einstök atriði sem huga verði að við framkvæmd samstarfsins. Þessi atriði eru:

  1. Varnir gegn blendings-ógnunum.
  2. Samstarf um aðgerðir, þ. á m. um flotamálefni. Þar er vísað til samstarfs á Miðjarðarhafi vegna straums farand- og flóttafólks yfir hafið til Evrópu.
  3. Tölvuöryggi og varnir.
  4. Varnarmáttur.
  5. Vopnaiðnaður og rannsóknir.
  6. Æfingar.
  7. Aukin geta á sviði varna og öryggis.

 

 

Skoða einnig

Rússar ráðast á barnaspítala í Kyiv

Rússar gerðu flugskeytaárás á helsta barnaspítalann í Kyiv mánudaginn 8. júlí. Að minnsta kosti 22 …