Home / Fréttir / NATO mundi afgreiða umsókn Finna á skömmum tíma

NATO mundi afgreiða umsókn Finna á skömmum tíma

Forrsætisráðherrar Danmerkur og Eistlands: Mette Frederiksen og Kaja Kallas.

Kaja Kallas, forsætisráðherra NATO-landsins Eistlands, lýsir í dag (1. apríl) enn á ný stuðningi við að Finnar fái aðild að NATO. Í samtali við blaðið Helsingin Sanomat segir forsætisráðherrann:

„Verði Finnland fullgilt aðildarland NATO þurfa Rússar ekki aðeins að líta til finnska varnarhersins heldur einnig til herja Bandaríkjanna, Bretlands og til dæmis Frakkland,“ segir forsætisráðherrann við blaðið.

Eistneski forsætisráðherrann vísar einnig til vetrarstríðsins, sem nú er oft nefnt til sögunnar, þegar finnski herinn hratt á bak aftur innrás sovéska hersins í upphafi síðari heimsstyrjaldarinnar. Þótt Finnar stæðu frammi fyrir því sem virtust afarkostir tókst her þeirra að valda miklu mannfalli í innrásarhernum og neyða hann til að hörfa á niðurlægjandi hátt.

Kallas minnir á að Finnar hafi snúist gegn Rússum en leiðtogar Eistlands hafi þá ákveðið að gera það ekki vegna þess að þeir töldu að með aðgerðaleysi sínu yrði fleiri mannslífum borgið.

„Í raun hófust grimmdarverkin gegn okkur vegna þess að við börðumst ekki. Þið börðust og margir féllu í stríðinu. Ég tel hins vegar að þið hafið bjargað fleiri mannslífum af því að ykkur tókst að varðveita sjálfstæði ykkar,“ sagði eistneski forsætisráðherrann við lesendur finnska blaðsins Helsingin Sanomat.

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, heimsótti Eistland miðvikudaginn 30. mars og sagði þá við blaðamenn að Danir mundu að sjálfsögðu veita umsókn Finna mikinn stuðning innan NATO sæktu þeir um aðild að bandalaginu.

Á blaðamannafundi í Brussel fimmtudaginn 31. mars með Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra NATO, sagði blaðamaður að orðrómur væri um að Finnar kynnu að leggja fram umsókn um NATO-aðild fyrir lok maí. Var Stoltenberg beðinn að segja skoðun sína á þessu.

Stoltenberg svaraði að NATO hefði ávallt virt þann grundvallarrétt hverrar þjóðar að ákveða sjálf eigin leið. Þetta ætti að sjálfsögðu einnig við um Finna og jafnframt Svía sem hefðu til þessa ákveðið að standa utan NATO. Enginn innan NATO hefði gert neina athugasemd við það. Á sama hátt yrði það virt af hálfu bandalagsins ef Finnar tækju ákvörðun um nýja stefnu og sæktu um aðild að NATO. Þetta væri finnsk ákvörðun og aðeins finnsk ákvörðun, fullveldisákvörðun tekin af fullvalda lýðræðisríki. NATO mundi virða hana sama hver niðurstaðan yrði. Finnar væru mjög náin samstarfsþjóð NATO. Engar samstarfsþjóðir stæðu nær NATO en Finnar og Svíar.

Stoltenberg sagðist hafa heimsótt Finnland og Svíþjóð haustið 2021 og þar hefði hann séð hvernig herafli Finna og Svía fullnægði kröfum NATO og hve náið samstarf herjanna væri við herafla NATO-ríkja. Hann ætti ekki von á öðru en Finnum yrði tekið opnum örmum sæktu þeir um aðild og fundinn yrði leið til að afgreiða aðildarskjölin og stofna til þátttöku Finna á skömmum tíma. Í lok svars síns ítrekaði framkvæmdastjóri NATO, að þetta væri ákvörðun Finna og NATO mundi bíða hennar.

 

 

 

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …