
Undirbúningur undir NATO-heræfinguna miklu undir stjórn Bandaríkjanna, Defender Europe 20, eykst jafnt og þétt. Mánudaginn 3. febrúar komu herbílar breska hersins til hafnarinnar í Antwerpen eins og sjá má á myndinni.
Flestir þátttakendur í æfingunni koma frá Bandaríkjunum en fleiri en NATO-þjóðir taka þátt í Defender Europe 20 eins og hermenn frá Georgíu og Finnlandi. Þátttakendur verða alls um 37.000. Hafa aldrei fleiri bandarískir hermenn verið sendir til Evrópu á sama tíma til æfinga í 25 ár.
„Aðdragandi æfingarinnar hefur sjálfur fælingarmátt því að hann kennir liði okkar til hvaða hluta þarf að líta þegar tekist er á við verkefni af þessari stærðargráðu og hvað þarf til að unnt sé að ljúka því á árangursríkan hátt. Megintilgangur æfingarinnar er að sýna að Bandaríkjaher geti flutt eina herdeild yfir Norður-Atlantshaf og sent hana til ólíkra og fjarlægra staða á meginlandi Evrópu,“ Tod D. Wolters hershöfðingi, yfirmaður Evrópuherstjórnar NATO (SHAPE).
Alls verða rúmlega 20.000 tæki flutt til meginlands Evrópu. Höfnin í Antwerpen er einn þeirra staða sem notaðir eru til móttöku hergagnanna. Þaðan geta bílalestir haldið til æfingarstaða sinna víðsvegar á meginlandinu. Bílunum verður alls ekið um 4.000 km til æfingarstaða.
Æfingin snýst um varnir Evrópu og um það að flytja með hraði fjölmennt bandarískt herlið yfir Atlantshaf til Evrópu sem tekur þar höndum saman við hermenn frá NATO-ríkjum og samstarfsríkjum þeirra. Á upphafsstigi æfingarinnar verða hergögn flutt til 14 flugvalla og hafna í átta Evrópuríkjum áður en æfingin sjálf hefst.
Heimild: SHAPE-upplýsingadeild