Home / Fréttir / NATO – mikilvægur samstarfsvettvangur

NATO – mikilvægur samstarfsvettvangur

20150707_collective-defence-img2

Höfundur: Kristinn Valdimarsson

Aukið vægi Íslands á alþjóðavettvangi

Meginverkefni Atlantshafsbandalagsins (NATO) er að vernda lýðræðisríkin í Evrópu og Norður – Ameríku.  Svo þau þrífist verður almenningur í þeim að fá upplýsingar um og mynda sér skoðun á samfélagsmálum.  Öryggis- og varnarmál eru mikilvægur hluti af þeim verkefnum sem ríki þurfa að takast á við.  Þetta á við hér á Íslandi jafnt og annars staðar.  Á tímum kalda stríðsins var háð óvægin hugmyndafræðileg barátta á milli þeirra sem vildu að Íslendingar tækju þátt í varnarsamstarfi vestrænna þjóða og þeirra sem voru því mótfallnir.  Eftir að kommúnisminn hrundi í Austur – Evrópu á níunda áratugnum var mun minna fjallað um öryggis- og varnarmál en áður.  Óttinn við að vekja upp deilur kaldastríðs­áranna má ekki verða til þess að öll umræða um málaflokkanna lognist nánast út af.  Á þessum vettvangi, líkt og öðrum, verða alltaf einhverjir með sleggjudóma og órökstuddar dylgjur en það á ekki að stoppa þá sem vilja ræða öryggismál af yfirvegum og skynsemi í að láta rödd sína heyrast hvaða skoðun sem þeim hafa svo sem á þeim.  Aðeins með þeim hætti er hægt að marka skynsamlega stefnu í málaflokknum.  Umræða um hann þarf að eiga sér stað núna þar sem mikilvægi norðurslóða er að aukast.  Þetta á m.a. við um Ísland nokkuð sem sést á því að tvö stórveldi sýna landinu mikinn áhuga um þessar mundir.

 

Upplýsingaveitur Atlantshafsbandalagsins

Atlantshafsbandalagið mun án efa gegna mikilvægu hlutverki á norðurslóðum í framtíðinni.  Margir sem styðja starfsemi þess eru hikandi við að lýsa yfir stuðningi við verkefni bandalagsins því þeir hafa litla þekkingu þeim.  Bæði er lítið fjallað um þau hér á landi og svo hugsa þeir eflaust sem svo að varnarbandalag veiti líklega litlar upplýsingar um starfsemi sína af öryggisástæðum.  Það er umhugsunarefni hvers vegna bandalag sem Íslendingar hafa verið í síðustu sjötíu ár og tryggir öryggi um milljarðs manna er nánast ekkert kynnt hér á landi.  Hitt er misskilningur að NATO sé eitthvert leynifélag.  Þvert á móti starfrækir bandalagið öfluga upplýsingadeild sem kynnir starfsemi bandalagsins m.a. á samfélagsmiðlum.  Hér verður vikið að upplýsingagjöf á heimasíðu bandalagsins.  Hún er í grófum dráttum þrenns konar.  Í fyrsta lagi gefur bandalagið út vefritið NATO Review.  Þar er að finna greiningu og umræður um öryggismál í Evrópu og á Atlantshafssvæðinu og viðhorf NATO til þeirra.  Á heimasíðu NATO er einnig hægt að gerast áskrifandi að fréttatilkynningum sem framkvæmdastjóri og aðstoðar­framkvæmdastjóri bandalagsins senda frá sér.  Undir þessa þjónustu falla líka yfirlýsingar sem gefnar eru út eftir ráðherra- og leiðtogafundi bandalagsins og koma frá fjölmiðlafulltrúum þess.  Hægt er að gerast áskrifandi að upplýsingum frá NATO hér: https://www.nato.int/cps/en/natolive/e-mail_distribution.htm

 

Nýjar stjórnstöðvar NATO

Þriðja leiðin til að kynnast starfsemi bandalagsins er að lesa NATO Update sem sent er áskrifendum í viku hverri.  Þar má finna nýjustu fréttir af starfsemi bandalagsins.  Í bréfinu sem kom út þann 20. þessa mánaðar kom m.a. fram að þremur dögum áður hefði ný stjórnstöð NATO tekið til starfa í Ulm í Þýskalandi.  Á ensku kallast hún The Joint Support and Enabling Command og er hlutverk hennar að skipuleggja flutninga herafla á vegum NATO um Evrópu og tryggja að þeir gangi snuðrulaust fyrir sig.  Ákvörðun um að koma hinni nýju stjórnstöð á laggirnar var tekin á fundi varnarmálaráðherra Atlantshafsbandalagsins í júní 2018 vegna þess að öryggi í austurhluta Evrópu er ótryggara núna en fyrir nokkrum árum síðan.  Reiknað er með því að miðstöðin verði fullmönnuð árið 2021 og þá muni starfa þar um 160 manns á friðartímum.  Samhliða stofnun nýju stjórnstöðvarinnar í Ulm ákvað NATO að endurvekja stjórnstöð fyrir Norður – Atlantshafið í Norfolk í Bandaríkjunum.  Hlutverk hennar er að tryggja sjóleiðina yfir hafið skapist hættuástand í Evrópu.

 

Saga NATO

Ein ástæða lítillar umræðu um stafsemi NATO hefur án efa eitthvað með það að gera að margir átta sig ekki vel á hlutverki bandalagsins.  Í hugum þeirra snýst starfsemi þess aðeins um byssur og skriðdreka enda sé hlutverk þess að verja Evrópu gegn ásælni Rússa.  Rétt er að þegar NATO var stofnað árið 1949 var helsta hlutverk þess að koma í veg fyrir hugsanlega innrás Sovétmanna í Vestur – Evrópu.  Það var aðeins tryggt með öflugum vörnum.  Varnir gegna ennþá lykilhlutverki í starfsemi bandalagsins en það hefur samt sem áður breyst mikið frá því að kalda stríðinu lauk.  Sem dæmi má taka að ríkjum NATO hefur fjölgað úr sextán í tæp þrjátíu.  Undir merkjum bandalagsins taka þau þátt í fjölbreyttum verkefnum sem stofn­endur þess sáu ekki fyrir.  Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér hvernig NATO hefur þróast er bent á hlaðvarp sem samið var í tilefni af sjötíu ára afmæli bandalagsins.  Slóðin á það er: https://shape.nato.int/history/information/podcasts?fbclid=IwAR3ryyeHHXg0LSK6bwTERHWJ7Mxq21lOsJfjiG0Ou6y7MWw6azZhkBXh7Zw

 

 

Skoða einnig

Drónaárás gerð á Moskvu

Ráðist var með drónum á Moskvu, höfuðborg Rússlands, að morgni þriðjudags 30. maí. Svo virðist …