
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, segir að á leiðtogafundi bandalagsins í Varsjá föstudaginn 8. júlí og laugardaginn 9. júlí verði teknar lykilákvarðanir um að styrkja herafla bandalagsins í austurhluta Evrópu.
Leiðtogar bandalagsríkjanna 28 komu síðast saman í Wales í september 2014 og lögðu þá áherslu á að útgjöld til varnarmála yrðu aukin í aðildarlöndunum og yrðu þau 2% af vergri landsframleiðslu.
Á blaðamannafundi mánudaginn 4. júlí í höfuðstöðvum NATO í Brussel sagði Stoltenberg að eftir fundinn í Wales hefði varnarmáttur NATO verið aukinn meira en nokkru sinni frá lokum kalda stríðsins. Hann sagði bandalagið hafa eflst. Nú þyrfti að taka næstu skref og á fundinum í Varsjá yrði ákveðið að styrkja varnir í austurhluta bandalagsins.
Ákvörðun verður tekin um að senda fjögur öflug fjölþjóðleg herfylki til Eistlands, undir stjórn Breta, Lettlands, undir stjórn Kanadamanna, Litháens, undir stjórn Þjóðverja og Póllands, undir stjórn Bandaríkjamanna.
Þá er einnig á döfinni að efla styrk bandalagsins í suð-austur Evrópu á grunni fjölþjóðlegs stórfylkis í Rúmeníu. Ráðstafanir verða gerðar til að efla tölvuöryggi og styrkja almannavarnir og varnir gegn árás með langdrægum kjarnorkueldflaugum.
Þegar Stoltenberg ræddi stöðu mála í Mið-Austurlöndum sagði hann að á leiðtogafundinum yrði tekin ákvörðun um að nota AWACS-eftirlitsflugvélar NATO til aðstoðar við þá sem berjast gegn Daesh (Ríki íslams) í Írak og Sýrlandi. Þá yrði tekin afstaða til tillögu um að NATO kæmi að öryggisgæslu á miðhluta Miðjarðarhafs vegna siglinga báta og skipa með farand- og flóttafólk á þessum slóðum.
Framkvæmdastjórinn sagði að innan NATO vildu menn að efnt yrði til fundar í samstarfsráði NATO og Rússa skömmu eftir leiðtogafundinn í Varsjá. „Við erum fúsir til að ræða við Rússa. Samstarfsráð Rússa og NATO skiptir miklu sem vettvangur fyrir viðræður og skipti á upplýsingum í því skyni að minnka spennu og stuðla að upplýsingum um framtíðaráform,“ sagði Stoltenberg. Þar ættu menn að ræða gegnsæi og leiðir til að draga út hættu á árekstrum.