Home / Fréttir / NATO: Landstöð eldflaugavarnarkerfis opnuð í Rúmeníu

NATO: Landstöð eldflaugavarnarkerfis opnuð í Rúmeníu

Frá gagneldflaugastöðinni í Rúmeníu.
Frá gagneldflaugastöðinni í Rúmeníu.

Bandarískt gagneldflaugastöð, Aegis Ashore, var formlega opnuð við bæinn Deveselu í suðurhluta Rúmeníu fimmtudaginn 12. maí. Þessi hluti kerfisins fellur inn í stærra gagneldflaugakerfi NATO sem styðst við stöðvar bæði á landi og um borð í skipum. Tilgangur kerfisins er að verja NATO-ríkin gegn hugsanlegri árás með langdrægum eldflaugum.

Rússar brugðust reiðir við fréttum um að kerfið hefði verið virkjað og sögðu það „ógn“ við öryggi sitt. Af hálfu NATO og Bandaríkjastjórnar er því hins vegar haldið fram að eldflaugavarnarkerfinu sé ekki stefnt gegn rússneskum eldflaugum. Ráðamenn í Moskvu segja skýringar af þessu tagi einskis virði. Dmitríj Peskvov, talsmaður Kremlverja, sagði við blaðamenn í Moskvu:

„Allt frá upphafi þessa máls höfum við sagt að sérfræðingar okkar séu þeirrar skoðunar að í þessu eldflaugavarnarkerfi felist raunveruleg ógn við öryggi Rússlands.“

Frank Rose, aðstoðar-utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði á blaðamannafundi í Búkarest, höfuðborg Rúmeníu, að virkjun varnarkerfisins ógnaði ekki öryggi Rússa hvað sem ráðamenn þeirra segðu.

„Af hálfu Bandaríkjanna og NATO hefur afdráttarlaust verið sagt að kerfið sé hvorki hannað né hafi getu til að minnka fælingarmátt langdrægra eldflauga Rússa.

Rússar hafa hvað eftir annað kvartað undan því að varnir Bandaríkjanna og NATO beinist gegn Rússum og ógni fælingarmætti langdrægs kjarnorkuherafla þeirra. Ekkert er fjær sanni.“

Þrátt fyrir yfirlýsingar af þessu tagi halda Kremlverjar því fram að tilgangurinn með eldflaugavarnarkerfinu sé að tryggja Bandaríkjunum nægilegan hernaðarmátt til að gera kjarnorkuherafla Rússa gagnslausan svo að Bandaríkjamenn geti greitt fyrsta höggið með kjarnorkuvopnum sínum komi til hernaðarátaka, þeir raski með öðrum orðum ógnarjafnvæginu í krafti kjarnorkuvopna.

Hafist var handa við að reisa Deveselu-stöðina í október 2013. Talið er að smíði hennar hafi kostað um 800 milljónir dollara. Á leiðtogafundi NATO í Varsjá í júlí 2016 verður stöðin formlega felld inn í eldflaugavarnarkerfi bandalagsins.

Í stöðinni eru tvær Aegis-ratsjár og 24 SM-3 eldflaugar. Slíkar eldflaugar hafa verið um borð í bandarískum herskipum á Miðjarðarhafi í nokkur ár. Nú eru þær í fyrsta sinn settar á skotpalla á landi.

Enska heitið gagneldflaugaverkefnisins er  European Phased Adaptive Approach. Því er ætlað að verjast langdrægum eldflaugum sem kynni að verða skotið í átt að Evrópu frá Íran. Smíði við sambærilega stöð og í Rúmeníu hefst í Póllandi föstudaginn 13. maí og á henni að verða lokið á árinu 2018.

 

Skoða einnig

Úkraínustjórn fordæmir erlenda „eftlrlitsmenn“ rússneskra svikakosninga á hernumdum svæðum í Úkraínui

Úkraínsk stjórnvöld hafa harðlega gagnrýnt kosningarnar sem efnt var til undir stjórn Rússa á hernumdum …