Home / Fréttir / NATO-kafbátaeftirlitsæfing við Ísland

NATO-kafbátaeftirlitsæfing við Ísland

NATO sendi frá sér þessa mynd í tilefni af æfingunni.
NATO sendi frá sér þessa mynd í tilefni af æfingunni.

Kafbátaeftirlitsæfingin Dynamic Mongoose 2020 er haldin hér við land dagana 29. júní til 10. júlí á vegum Atlantshafsbandalagsins (NATO). Auk Íslands taka sex ríki Atlantshafsbandalagsins þátt í æfingunni; Bandaríkin, Bretland, Frakkland, Kanada, Noregur og  Þýskaland. Þau leggja til fimm kafbáta, fimm herskip og fimm kafbátaleitarflugvélar.

Í tilkynningu utanríkisráðuneytisins um æfinguna segir:

„Æfingar af þessu tagi hafa verið haldnar árlega undan ströndum Noregs frá árinu 2012 nema þegar hún fór fram hér á landi árið 2017. Ákveðið hefur verið að framvegis verði æfingarnar haldnar til skiptis á Íslandi og í Noregi. Íslendingar leggja til aðstöðu á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli og Landhelgisgæsla Íslands tekur þátt í æfingunni, m.a. með stjórnstöð Atlantshafsbandalagsins á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli auk þess sem varðskip og þyrlur munu taka þátt í þeim hluta æfingarinnar sem tengjast hefðbundnum verkefnum stofnunarinnar.“

Keith Blount, flotaforingi og yfirmaður sameiginlegrar flotastjórnar NATO ( NATO’s Allied Maritime Command) sagði í fréttatilkynningu NATO að með æfingunni væri lögð áhersla á að þjálfun gegn kafbátaógn. Hann fagnaði því vel hve íslensk yfirvöld hefðu staðið vel að öllum undirbúningi vegna æfingarinnar og hve mikilsvert væri að njóta liðsinnis þeirra við framkvæmd hennar.

Bandaríski tundurspillirinn Roosevelt sem búinn er stýriflaugum og hraðskreiði árásarkafbáturinn Indiana taka þátt í æfingunni ásamt fjórum öðrum herskipum frá Bretlandi, Kanada og Noregi auk fjögurra kafbáta frá Bretlandi, Frakklandi, Noregi og Þýskalandi.

Þá taka tvær bandarískar P-8 Poseidon kafbátaleitarvélar, ein bresk P-8-vél og frönsk ATL II flotaeftirlitsvél þátt í æfingunni.

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …