Home / Fréttir / NATO kæmi Finnum til aðstoðar á hættustundu

NATO kæmi Finnum til aðstoðar á hættustundu

Alexander Vershbow, vara-framkvæmdastjóri NATO, ræðir við fréttamann.
Alexander Vershbow, vara-framkvæmdastjóri NATO, ræðir við fréttamann.

Alexander Vershbow, vara-framkvæmdastjóri NATO, sagði í samtali við finnsk blöð í eigu Lännen-fyrirtækisins laugardaginn 24. september að bæði Finnar og Svíar gætu tekið þátt í gagnaðgerðum herja undir forystu NATO á hættutímum og þeir mundu einnig njóta aðstoðar frá bandalaginu.

„Hættuástand á Eystrasaltssvæðinu gæti auðveldlega bæði snert aðildarríki NATO og Finnland,“ sagði Vershbow. „NATO gæti ákveðið að bregðast við með því að vernda aðildarríki sín og veita nánum samstarfsaðilum aðstoð.“

Hann sagði að ákvörðun um að veita Finnum hernaðarlega aðstoð mundi ráðast af aðstæðum hverju sinni og einnig yrði að vera samstaða um hana meðal NATO-ríkjanna. Á hinn bóginn hefðu náin tengsl Finna og NATO þróast á þann veg að NATO-ríkin mundu vilja veita Finnum einhvers konar aðstoð á hættutímum.

Finnar gerðust formlegir samstarfsaðilar NATO árið 1994 en í samstarfinu felst meðal annars að þeir geta óskað eftir viðræðum um aðstoð á hættutímum. Vershbow sagði að NATO mundi tafarlaust boða til neyðarfundar ef slik tilmæli bærust.

Hann benti einnig á að bæði Finnar og Svíar hefðu rétt  – en ekki skyldu – til að slást í lið með NATO kæmi til hættuástands á Eystrasaltssvæðinu. Nú þegar væri oft efnt til samráðsfunda fulltrúa Finnlands og NATO. Þá tækju Finnar þátt í heræfingum undir stjórn NATO og reglulega bæru fulltrúar Finna og NATO saman bækur sínar við gerð hættumats á Eystrasaltssvæðinu.

Vara-framkvæmdastjóri NATO ræddi einnig um kjarnorkuvopnastefnu Rússa í blaðaviðtalinu. Hann sagði:

„Svo virðist sem Rússar treysti meira á kjarnorkuvopn sín en áður eftir innrásina á Krímskaga. Rússar hafa staðfest þetta á áberandi hátt með því að efna til æfinga með hermi-aðferðum sem sýna beitingu kjarnorkuvopna. Þeir gera þetta til að senda pólitísk skilaboð – og til að hræða nágranna sína undanbragðalaust.“

Vershbow segir að versta sviðsmyndin sé að Rússar beiti kjarnorkuvopnum sem taktískri skiptimynt á Eystrasaltssvæðinu en telur þó óhugsandi að það gerist.

Jussi Niinistö, varnarmálaráðherra Finnlands, brást við orðum Vershbows með því að segja að Finnar gætu alls ekki reist varnir sínar á NATO.

„Það er nauðsynlegt að draga skýr skil milli NATO-aðildar og samráðsins sem Vershbow nefnir. Finnland er utan hernaðarbandalaga með sjálfstæðan þjóðarher.“

Niinistö bætti við að formlega samstarfið við NATO fengi ekki aukið gildi á hættutímum. „Sjáið til dæmis Úkraínu sem hefur einnig gert samstarfssamning við NATO,“ sagði varnarmálaráðherrann.

Heimild: YLE

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …