Home / Fréttir / NATO-herskip búa sig undir æfingar við Finnland

NATO-herskip búa sig undir æfingar við Finnland

NATO-herskip í Helsinki-höfn.
NATO-herskip í Helsinki-höfn.

Freigátur frá Bretlandi og Spáni eru nú við bryggju í Helsinki-höfn og búa sig undir flotaæfingar á Eystrasalti eftir tæpar tvær vikur. Freigátur eru búnar gagneldflaugakerfum og segir finnska ríkisútvarpið YLE að koma herskipanna til Helsinki sé til marks um aukna viðveru herafla undir merkjum NATO í nágrenni Finnlands.

NATO segir að efla verði herstyrk í nafni bandalagsins á Eystrasalti vegna ógna Rússa í garð Eystrasaltsríkjanna sem eru í NATO og þess vegna ekki í sömu sporum og Finnar og Svíar.

Spænska freigátan Álvaro de Bazán og sú breska Iron Duke eru um þessar mundir í 1. fastaflota NATO Standing NATO Maritime Group 1 (SNMG1). Fastaflotinn er fjölþjóðlegur floti sem er sífellt til taks til að sinna fjölbreyttum verkefnum á vegum NATO.

Iron Duke og þrír breskir tundurduflaslæðarar hafa verið sendir til Eystrasaltsins á þessu ári. Frá því í mars 2016 hefur 1. fastafloti NATO verið á Eystraslti.

Spænska freigátan Álvaro de Bazán er búin Aegis-gagneldflaugakerfi. Það gerir kleift að nýta skipið sem hluta af bandaríska gagneldflaugakerfinu í Evrópu.

Áður en skipin komu til Finnlands voru þau i Tallinn, höfuðborg Eistlands, og öðrum höfnum við Eystrasalt.

Árlegar flotaæfingar NATO og samstarfsríkja, BALTOPS, eiga að hefjast á Finnska flóa 3. júní og ljúka undan strönd Póllands tveimur vikum síðar.

 

Skoða einnig

Úkraínuher fær F-16-þotur að lokinni þjálfun flugmanna

Bandaríkjastjórn hefur heimilað stjórnvöldum bandalagsríkja sinna að gefa Úkraínumönnum F-16-orrustuþotur. Þar með aukast líkur á …