Home / Fréttir / NATO herforingjar við rússnesku landamærin í norðri

NATO herforingjar við rússnesku landamærin í norðri

Thomas Nilsen, ritstjóri Barents Observer, tók þessa sögulegu mynd að háttsettum NATO-foringjum við norska stöð á landamærunum gagnvart Rússlandi.

Um þessar mundir stendur heræfingin Joint Viking yfir í Tromsfylki í Norður-Noregi. Í tengslum við hana fóru stjórnendur tveggja af þremur aðgerðaherstjórnum NATO, Joint Force Command (JFC) Norfolk í Bandaríkjunum og Joint Force Command (JFC) Brunssum í Hollandi, að rússnesku landamærunum við Pasvik-ána, þar sem norskir hermenn gæta norsku landamæranna vestan árinnar en FSB, rússneskir öryggislögreglumenn, austan hennar.

Flotaforinginn Tim Henry er annar æðsti yfirmaður JFC Norfolk en herstjórnin fer með gæslu öryggis á siglingaleiðum yfir Norður-Atlantshaf. Hann sagði miklu skipta að treysta varnir nyrsta hluta Noregs og búa þar yfir miklum fælingarmætti. NATO yrði sýnilegt á norðurslóðum þar á meðal á Barentshafi. Með stöðugum æfingum vildi NATO laga aðgerðir sínar að breytilegum aðstæðum.

Æfingin Joint Viking 2023 snýst um flutning liðsauka til norðurhluta Skandinavíu, kæmi til átaka. Þar skiptir miklu að takist að flytja hermenn og vopn frá Norður-Ameríku til Noregs. Þar sem þess er vænst að Svíar og Finnar verði brátt aðilar að NATO er einnig æft núna hvernig best sé að flytja liðsauka til landa þeirra um Norður-Noreg.

Bandarískar viðbragðssveitir og hersveitir fluttar með flugvélum hafa verið nær stöðugt á æfingum með norskum, sænskum og finnskum land- og flugherjum frá því að Rússar réðust inn í Úkraínu fyrir rúmu ári.

Norski hershöfðinginn Yngve Odlo, yfirmaður sameiginlegrar herstjórnar Noregs, hefur ekki áhyggjur af því að Rússar líti á það sem ögrun við sig að fjölmennur hópur herforingja frá NATO-ríkjunum fari svo nærri einu hernaðarlega mikilvægasta svæði Rússlands.

Kafbátafloti Rússa, búinn langdrægum eldflaugum, hlöðnum kjarnaoddum, sem skjóta má á skotmörk í Norður-Ameríku er með heimahöfn í Gadzijevo við strönd Barentshafs, um það bil 100 km frá norsku landamærunum.

Sameiginleg landamæri Noregs og Rússlands eru um 200 km löng. Þar hefur aldrei komið til hernaðarátaka.

Skýrasta dæmið um að Rússar óttast ekki NATO í norðri er að flestir landhermennirnir á Petsamó-svæðinu við norsku landamærin voru í fyrra sendir til að berjast í Úkraínu.

Njósnastofnun norska hersins sagði í febrúar 2023 að 80% landhermanna og bryndreka frá svæðum nærri Noregi hefðu verið send til Úkraínu.

 

Heimild: Barents Observer

 

 

Skoða einnig

Jevgeníj Pirogsjin.

Wagner-foringi skapar spennu í Kreml

Jevgeníj Prigosjín, foringi alræmdu Wagner-málaliðanna, hefur opinberlega hafnað lykilatriðum í útlistun Kremlverja á tilefni stríðsins …