Home / Fréttir / NATO gegn hryðjuverkum með embætti upplýsinga- og greiningarstjóra

NATO gegn hryðjuverkum með embætti upplýsinga- og greiningarstjóra

 

Fundur varnarmálaráðherra NATO 24. júní 2015.
Fundarsalur Atlantshafsráðsins í Brussel.

Innan NATO er stefnt að því að koma á fót nýju valdamiklu embætti til að samræma öflun, greiningu og miðlun viðkvæmra upplýsinga aðildarríkjanna. Markmiðið er að stuðla að aukinni dreifingu trúnaðarupplýsinga um hryðjuverk og aðrar ógnir. Eftir hryðjuverkin í París og Brussel hafa Evrópuríki lagt sig fram um meiri skipti slíkra upplýsinga sín á milli. Meðal ráðamanna á þessu sviði er talið að meiri virkni innan NATO undir stjórn háttsetts embættismanns kynni að auka þetta upplýsingaflæði. Bandarísk yfirvöld senda magn upplýsinga af þessu tagi til NATO. Frá þessu er sagt í The Wall Street Journal (WSJ) mánudaginn 6. júní.

Eins og málum er nú háttað hefur NATO engu formlegu hlutverki að gegna í baráttunni við Ríki íslams. Innan bandalagsins hefur gætt vaxandi gagnrýni vegna þess að þar sé ekki beint nægilegri athygli og kröftum gegn hryðjuverkum.

Eigi NATO að láta meira að sér kveða á þessu sviði segja embættismenn að tryggja verði betri sameiginlega greiningu og dreifingu á leynilegum upplýsingum. Talið er að á leiðtogafundi NATO-ríkjanna sem verður í Varsjá 8. og 9. júlí verði samþykkt að koma á fót embætti aðstoðarframkvæmdastjóra upplýsinga- og greiningarmála. Hugmynd um slíkt embætti hefur verið á döfinni um nokkurt skeið í því skyni að afla og greina upplýsingar um hernaðarumsvif Rússa. Á það er hins vegar bent að mestu áhrif af auknu starfi á þessu sviði yrðu varðandi greiningu og dreifingu upplýsinga um Ríki íslams og aðra hryðjuverkahópa í Mið-Austurlöndum.

Embættismenn minna á að NATO sé hernaðarbandalag og hafi ekki neinu löggæsluhlutverki að gegna. Bandalagið geti til dæmis ekki farið inn á verksvið Europol, Evrópulögreglunnar. Þar var nýlega komið á fót gagn-hryðjuverkamiðstöð. Innan ESB eru öryggismál einkamál hvers ríkis en í umboði NATO felst að miðla viðkvæmum upplýsingum milli aðildarríkjanna í gegnum öruggt kerfi og á grundvelli margreyndra aðferða við dreifingu slíkra upplýsinga. Þá eru Bandaríkin og Tyrkland í NATO, innan beggja ríkjanna er aflað mikils magns mikilvægra upplýsinga um hryðjuverkahópa.

Skoða einnig

Rússar við Kharkiv – Úkraínumenn sækja á Krím

Rússar hafa sótt fram á nokkrum stöðum í Úkraínu undanfarna daga en yfirhershöfðingi NATO í …