Home / Fréttir / NATO gegn hryðjuverkaógn

NATO gegn hryðjuverkaógn

Æfing í hryðjuverkavörnum á vegum NATO.
Æfing í hryðjuverkavörnum á vegum NATO.

Höfundur: Kristinn Valdimarsson

Atlantshafsbandalagið (NATO) er sjötíu ára í ár.  Þá sjaldan er fjallað um bandalagið hér á Íslandi er rætt um hernaðarmátt þess.  Þetta er villandi umfjöllun.  Rétt er að NATO var stofnað árið 1949 til þess að koma í veg fyrir að herafli Sovétríkjanna réðist inn í Vestur – Evrópu en staða mála hefur breyst mikið síðan.  Hinn gamli andstæðingur NATO hvarf af sjónarsviðinu árið 1990 og í kjölfarið ákváðu aðildarríki bandalagsins að það skyldi takast á við fjölbreyttari öryggisverkefni.  Rússum var rétt sáttahönd og komst á samstarf milli þessara aðila um tíma.  Utanríkisstefna Rússlands hefur því miður á undanförnum árum verið árásargjörn og hefur NATO brugðist við með því að endurskipuleggja herafla sinn.  Þess má t.d. geta að 2. floti Bandaríkjanna hefur verið endurvakinn.  Hann vaktar austurströnd Bandaríkjanna, Norður – Atlantshafið og Íshafið.

Í dag sinnir NATO hins vegar fleiri verkefnum en að fylgjast með Rússum.  Á leiðtogafundi bandalagsins í Lissabon árið 2010 var ákveðið að NATO skyldi í framtíðinni sinna þremur grunnverkefnum.  Þau eru sameiginlegar varnir, alþjóðleg öryggissamvinna og einnig beinir bandalagið sjónum sínum að spennuaðstæðum og hvernig megi leysa slík vandamál.  Varnir gegn hryðjuverkum tengjast öllum þessum verkefnum.  Fyrir stuttu var birt grein um hryðjuverkavarnadeild bandalagsins á facebook síðu ATA.  ATA stendur fyrir Atlantic Treaty Association og má kalla hollvinasamtök Atlantshafsbandalagsins.  Á vef þeirra er að finna mikið af fróðlegum upplýsingum um bandalagið ekki síst sögu þess.  Varðberg er aðili að  ATA samtökunum.

Fyrrnefnd grein var upphaflega birt í NATO Review sem er tímarit bandalagsins.  Um var að ræða viðtal við Juliette Bird.  Juliette er Breti.  Hún hefur lengi unnið í utanríkisþjónustu ríkisins m.a. í sendinefnd Breta hjá Evrópusambandinu (ESB).  Í því starfi einbeitti hún sér að hnattrænum ógnum þ.á.m. hryðjuverkum.  Hún var ráðin til NATO til að setja upp hryðjuverkavarnadeild hjá bandalaginu og frá árinu 2011 var hún yfirmaður hennar.  Hún sagði starfi sínu lausu fyrr á árinu og var viðtal NATO Review við hana af því tilefni.  Viðtalið gefur smá innsýn í starf hryðjuverkadeildarinnar.

Juliette nefnir að NATO vinni á grundvelli hryðjuverkavarnastefnu Sameinuðu þjóðanna (e. Global Counter-Terrorism Strategy).  Stofnanauppbygging Sameinuðu þjóðanna er flókin og ýmsir innan samtakanna hafa haft horn í síðu NATO.  Samvinna á milli þessara aðila var því lengi takmörkuð.  Þetta hefur mikið breyst til batnaðar á síðustu árum.  Svipaða sögu er að segja af samstarfi NATO og ESB.  Þau voru lengi að mestu óformleg og frekar lítil.  Svo er ekki lengur og nú eru reglulegir fundir haldnir milli aðila sem berjast gegn hryðjuverkum í stofnununum tveimur.

Síðan nefnir Juliette samvinnu NATO við tvær borgaralegar stofnanir sem vinna gegn hryðjuverkum.  Önnur heitir á ensku Global Counterterrorism Forum.  Samtökin voru stofnuð árið 2011 og eru 29 ríki auk ESB meðlimir.  Markmið þeirra er að berjast gegn hugmyndafræði hryðjuverka.  NATO hefur átt gott samstarf við samtökin.  Hin stofnunin kallast International Center for Counter-Terrorism.  Um er að ræða hugveitu sem staðsett er í Hollandi.  Stofnunin hefur unnið að ýmsum samvinnuverkefnum með Atlantshafs­bandalaginu á sviði hryðjuverkavarna.

Líkt og sjá má af greininni vinnur NATO með mörgum samstarfsaðilum á sviði hryðjuverkavarna.  Ísland hefur sloppið við að verða skotspónn hryðjuverkamanna og vonandi verður svo áfram.  Það er hins vegar því miður ekki hægt að gefa sér neitt í þeim efnum líkt og skýrsla greiningar­deildar Ríkislögreglustjóra frá 2017 sýnir.  Því er mikilvægt fyrir okkur að gefa þessum málum gaum og þá kemur sér vel að taka þátt í bandalagi með ríkjum sem hafa mikla þekkingu á málaflokknum og getu til að verjast hryðjuverkum með öflugum hætti.

 

 

 

Skoða einnig

Spenna í Íran á eins ár minningardegi Amini sem lögregla myrti vegna skorts á höfuðslæðu

Íranir heima og erlendis minnast þess laugardaginn 16. september að eitt ár er liðið frá …