Home / Fréttir / NATO gegn Daesh – Trump heillaður af páfanum

NATO gegn Daesh – Trump heillaður af páfanum

36117275_303-2

Ríkisoddvitar NATO-ríkjanna koma saman til fundar í Brussel fimmtudaginn 25. maí og er talið að þeir samþykki formlega aðild bandalagsins að hópi þeirra ríkja sem berjast gegn hryðjuverkasamtökunum Daesh (Ríki íslams). Sagt er að Frakkar og Þjóðverjar hafi gefið grænt ljós á þessa „algjörlega formlegu“ þátttöku.

Frétt um að þetta yrði samþykkt á fundinum var lekið um það leyti sem Donald Trump Bandaríkjaforseti kom til Brussel frá Róm miðvikudaginn 24. maí.

Áður hafði Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, hvatt til þess að bandalagið ætti að leita að sér kveða í baráttunni gegn hryðjuverkum með vísan til ódæðisins sem unnið var í Manchester Arena mánudaginn 22. maí þar sem 22 týndu lífi.

Í frétt Deutsche Welle um fyrirhugaða ákvörðun segir að hún sé fyrst og síðast pólitísk því að öll NATO-ríkin 28 hafi til þessa lagt sitt af mörkum til að ná landsvæðum í Írak og Sýrlandi aftur frá Daesh. Aðildin er misjöfn. Þjóðverjar veita til dæmis aðeins stuðing utan vígvallarins.

Þá gegnir NATO virku hlutverki við miðlun leynilegra upplýsinga og þjálfun heimamanna í stríðshrjáðum löndunum.

Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði miðvikudaginn 24. maí að það skipti miklu máli að NATO yrði aðili að 68 ríkja hópnum sem berðist gegn Daesh.

„Ég held þeir ætli að styðja aðild NATO,“ sagði hann og vísaði til Frakka og Þjóðverja.

Eftir að Donald Trump lenti í Brussel hitti hann Belgíukonung. Áður en Trump fer á fundinn í höfuðstöðvum NATO hittir hann forystumenn embættisliðs ESB og borðar síðan hádegisverð með Emmanuel Macron Frakklandsforseta.

Frans páfi og Donald Trump.
Frans páfi og Donald Trump.

Áður en Trump hélt frá Róm til Brussel hitti hann Frans páfa í Páfagarði. Að loknum fundinum sögðu talsmenn páfa að þeir hefðu verið sammála um stuðning sinn við lífið og frelsi til eigin trúar og samvisku. Þeir hefðu lýst von um að þeir gætu unnið saman í þágu fólks á sviði heilsugæslu og menntunar auk þess að aðstoða farandfólk. Þeir ræddu nauðsyn þess að tryggja frið með viðræðum milli þjóða og ólíkra trúarbragða. Þá vilja þeir vernda kristna trúarhópa í Mið-Austurlöndum.

Katya Adler, fréttaritari BBC, sagði að Trump hefði virst heillaður eftir að hann hitti páfann. „Hann er sérstakur, hann er sannarlega góður. Við áttum stórkostlegan fund og ferðin var stórkostleg, allt var ákaflega fallegt. Við kunnum mjög vel við Ítalíu … það var heiður að vera með páfanum.“

Seinna sagði Trump á Twitter: „Heiður lífsins að hitta hans heilagleika Frans páfa. Ég yfirgef Vatíkanið staðráðnari en nokkru sinni að vinna að FRIÐI í heiminum.“

Þeir skiptust á gjöfum. Trump gaf páfanum öskju með greinum Martins Luthers Kings, baráttumanns fyrir réttindum blökkumanna. Páfinn gaf Trump áritað skjal með boðskap sínum á alþjóðlega friðardeginum auk nokkurra greina sinna um umhverfisvernd.

Hann færði Trump einnig litla eftirmynd af ólívutré og sagði með aðstoð túlks: „Það er þrá mín að þú verðir ólívutré í þágu friðar.“

Trump svaraði og sagði: „Við þurfum á friði að halda.“ Hann sagðist einnig ætla að lesa það sem páfinn hefði gefið sér.

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …