Home / Fréttir / NATO-fundur: Varnir verða efldar og fælingamáttur aukinn

NATO-fundur: Varnir verða efldar og fælingamáttur aukinn

 

NATO-fundurinn var haldinn í nýjum höfuðstöðvum bandalagsins.
NATO-fundurinn var haldinn í nýjum höfuðstöðvum bandalagsins. (NATO/mynd)

Ríkisoddvitar NATO-ríkjanna samþykktu í Brussel miðvikudaginn 11. júlí að styrkja varnir og fælingarmátt NATO, herða baráttu undir merkjum bandalagsins gegn hryðjuverkjum og skipta byrðum innan bandalagsins á sanngjarnari hátt.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, sagði á blaðamannafundi í lok funda dagsins: „Ákvarðanirnar sem við höfum tekið í dag sýna að ríki Evrópu og Norður-Ameríku vinna saman. Árangur næst fyrir tilstyrk NATO og við höfum bundist fastmælum um að tryggja nærri milljarði íbúa landa okkar vernd og öryggi.“

Margar ákvarðana sem teknar voru á fundi ríkisoddvitanna 29 snúast um að gera NATO betur í stakk búið til að takast á við ný, erfið viðfangsefni á sviði öryggismála, þar á meðal er ný viðbragðsáætlun sem gerir ráð fyrir að virkja megi þrjátíu vélaherfylki, þrjátíu flugsveitir og þrjátíu herskip til notkunar innan þrjátíu daga.

Jafnframt var staðfest breytingin á herstjórnakerfi NATO sem felur í sér að komið er á fót Atlantshafsherstjórn í Norfolk í Virginíuríki í Bandaríkjunum og birgða- og flutningastjórn í Ulm í Þýskalandi. Ný netvarnamiðstöð verður stofnuð í Evrópuherstjórn NATO (SHAPE) í Mons í Belgíu.

Samþykkt var að NATO sendi nokkur hundruð þjálfara til að aðstoða stjórnvöld í Írak auk þess verður stuðningur aukinn við Jórdaníu og Túnis. Þetta er gert í því skyni að vinna gegn hryðjuverkum. Soltenberg tilkynnti að starfsemi væri hafin í miðstöð NATO í Napólí vegna aðgerða í suðri. Þaðan verður fylgst náið með þróun á suðurvæng bandalagsins.

Jens Stoltenberg áréttaði mikilvægi þess að byrðum sé skipt á sanngjarnari hátt milli aðildarríkjanna. Hann sagði að hernaðarútgjöld ykjust í öllum aðildarlöndunum. Í ár hafa átta NATO-ríki ákveðið þessi útgjöld á þann veg að þau nema 2% eða meira af vergri landsframleiðslu. Meirihluti ríkjanna stefnir að því að ná þessu marki árið 2024 eins ákveðið var árið 2014.  Framkvæmdastjórinn sagði að miðað við útgjaldaáætlanir einstakra ríkja í Evrópu og Kanada væri ætlunin að auka útgjöld til varnarmála um 266 milljarða dollara sérstaklega frá árinu í ár til 2014. „Við höfum því snúið vörn í sókn en betur má ef duga skal. Þetta snýst um sanngirni, þetta snýst um trúverðugleika okkar og umfram allt þá snýst þetta um öryggi okkar í heimi sem er ógtryggari en áður,“ sagðo Stoltenberg.

Á fundinum var ákveðið að bjóða ríkisstjórninni í Skopje að hefja aðildarviðræður. Að loknu ferli innan ríkisins sem ætlunin er að heiti Lýðveldið Norður-Makedónía að lokinni þjóðaratkvæðagreiðslu innan þess getur landið orðið 30. aðildarríki NATO.

 

 

 

 

 

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …