
Fimm fyrrverandi framkvæmdastjórar NATO, Lord Carrington; Javier Solana; Lord Robertson; Jaap de Hoop Scheffer og Anders Fogh Rasmussen, birta þriðjudaginn 10. maí opið bréf í breska blaðinu The Daily Telegraph þar sem þeir lýsa ESB sem „lykil-samstarfsaðila“ NATO við að „sporna gegn óstöðugleika“ á meginlandi Evrópu og víðar.
Bréfið er birt í tilefni af væntanlegri þjóðaratkvæðagreiðslu í Bretlandi um aðildina að ESB. Þar segir:
„Á tímum þegar óstöðugleiki ríkir í heiminum og þegar NATO reynir að auka styrk sinn í austurhluta Evrópu hefði það mjög truflandi áhrif ef Bretar segðu sig úr ESB … Brexit [úrsögn úr ESB] mundi án vafa draga úr áhrifum Breta, veikja NATO og gefa andstæðingum Vesturlanda byr í seglin.“
Samtímis birtu 13 fyrrverandi utanríkisráðherrar, varnarmálaráðherrar og þjóðaröryggisráðgjafar Bandaríkjanna opið bréf í breska blaðinu The Times þar sem þeir sögðu:
„Heimurinn þarfnast öflugrar og sameinaðrar Evrópu til að vinna með Bandaríkjunum að lausn hinna mörgu geopólitísku og efnahagslegu verkefna sem við okkur blasa… Hið sérstaka samband landa okkar tveggja dugar ekki til að koma í stað minnkandi áhrifa og ítaka Breta verði þeir ekki áfram aðilar að ESB.“
Boris Johnson. þingmaður Íhaldsflokksins, flutti ræðu mánudaginn 9. maí þar sem hann sakaði ESB-aðildarsinna um að nota rök á borð við það að færu Bretar úr ESB yrðu að nýju til blóðvellir í Flæmingjalandi (eins og í fyrri heimsstyrjöldinni). Hann sagði þetta viðhorf gera alltof lítið úr breytingum í Evrópu og þeirri staðreynd að NATO væri undirstaða friðar í Evrópu. Þetta gerði einnig lítið úr því að í raun væri það ESB sjálft og ólýðræðislegar tilhneigingar þess sem stuðluðu að óstöðugleika og firringu í álfunni. Hann sagði að sá tilbúningur ESB að það hefði eigin varnarstefnu hefði leitt til vandræða „sjáið hvað hefur gerst í Úkraínu,“ sagði hann.
Jack Straw, fyrrverandi utanríkisráðherra breska Verkamannaflokksins, brást hart við þessum orðum Johnsons og sagði:
„Boris Johnson hefur í dag sokkið enn lægra en áður með því að fara á sama stig og Farage [Nigel Farage leiðtogi UKIP, flokks breskra sjálfstæðissinna], Le Pen [Marine Le Pen leiðtogi Þjóðfylkingarinnar í Frakklandi] og Wilders [Gert Wilders í Hollandi] og skella skuldinni vegna þess sem gerst hefur í Úkraínu frekar á ESB en Vladimír Pútín [Rússlandsforseta].“
Boris Johnson flutti mánudaginn 9. maí fyrstu ræðu sína gegn ESB-aðild eftir að hann lét af störfum borgarstjóra í London. Hann ætlar nú að ferðast um Bretlandseyjar undir merkjum úrsagnarsinna. Johnson er eftirsóttur ræðumaður og minnti áheyrendur sína í gær á að ekki væri unnt að flokka sig og skoðanasystkini sín sem eyjaskeggja sem vissu ekkert um evrópska menningu, sjálfur gæti hann lesið bækur á mörgum erlendum tungumálum og sungið Óðinn til gleðinnar á þýsku, það er Freude, schöner Götterfunken eftir Friedrich Schiller í 9. sinfóníu Beethovens. Sannaði hann það síðan með því að taka lagið. Eins og við var að búast veittust andstæðingar Johnsons að honum fyrir að „syngja þjóðsöng Evrópu“.