Home / Fréttir / NATO flytur í nýjar höfuðstöðvar

NATO flytur í nýjar höfuðstöðvar

 

Nýjar höfuðstöðvar NATO.
Nýjar höfuðstöðvar NATO.

Fastafulltrúar NATO-ríkjanna 29 komu saman til fyrsta fundar síns í nýjum höfuðstöðvum Atlantshafsbandalagsins (NATO) miðvikudaginn 9. maí undir stjórn Jens Stoltenbergs, framkvæmdastjóra bandalagsins.

Enn er unnið að því að flytja um 4.000 manna starfslið fastanefnda bandalagsríkjanna og bandalagsins sjálfs í nýju höfuðstöðvarnar. Stefnt er að því að öll starfsemi NATO verði á nýja staðnum í júlí þegar efnt verður til leiðtogafundar bandalagsríkjanna þar.

NATO fluttist til Brussel frá París árið 1967 og fékk inni „til bráðabirgða“ í húsum belgíska flughersins í Evere, úthverfi Brussel, skammt frá flugvellinum í Zaventem. Þar hefur bandalagið verið til húsa í hálfa öld. Aðildarríkjunum hefur fjölgað úr 15 í 29 á þessum árum og gífurlegar breytingar orðið í öryggismálum.

Þar sem upphaflega var litið á aðsetur bandalagsins sem bráðabirgðalausn hafa allar stækkanir á höfuðstöðvunum einnig verið til bráðabirgða. Nú fyrst flytur bandalagið í húsakynni sem eru sérhönnuð fyrir starfsemi þess.

Framkvæmdir við nýju höfuðstöðvarnar hófust í desember 2010 þegar fyrsta skóflustungan var tekin. Belgar, gestgjafar NATO, afhentu bandalaginu bygginguna formlega 25. maí 2017. Nýja byggingin, 250.000 fermetrar, er við Boulevard Léopold III beint á móti byggingunum sem nú hafa verið yfirgefnar þannig að starfsemin og starfsmennirnir hafa einungis orðið að flytja yfir breiðgötuna. Hófst flutningurinn 18. mars 2018.

Atlantshafsráðið hittist í ráðstefnusal 1.
Atlantshafsráðið hittist í ráðstefnusal 1.

Gert er ráð fyrir að 1.500 starfsmenn fastanefnda rúmist í nýju byggingunni, 1.700 manna alþjóðlegt starfslið NATO og 650 manns frá stofnunum NATO.  Talið er að dag hvern komi um 500 gestir í höfuðstöðvarnar.

Skrifstofur samstarfsþjóða NATO eru í sérstöku húsi.

Alls eru 18 ráðstefnusalir með innbyggðum túlka- og fjarfundabúnaði í nýju byggingunni.

Jo Palma er höfuðarkitekt hússins. Hann segir að við gerð þess hafi verið tekið ríkt tillit til umhverfiskrafna og sjálfbærni.

Gler í gluggum hússins spanna 72.000 fermetra. Glerið veitir mikla einangrun og vernd gegn sólarljósi, heldur hita utan dyra um sumur og innan dyra um vetur. Með svo miklu gleri nýtist dagsbirtan vel og dregið er úr kostnaði við hitun, loftkælingu og lýsingu innan dyra.

Aflíðandi þök hússins eru hönnuð með það fyrir augum að safna regnvatni, á þann hátt safnast 90% þess vatns sem notað er við garðrækt, þvotta og í salernisskálar. Orka sparast með því að nota heitt vatn til hitunar á vetrum og kælingar á sumrin.

Góður aðgangur er að almenningssamgöngum frá nýju byggingunni. Með aukinni notkun fjarfundabúnaðar verður dregið úr ferðalögum milli landa.

 

 

Skoða einnig

Úkraínustjórn fordæmir erlenda „eftlrlitsmenn“ rússneskra svikakosninga á hernumdum svæðum í Úkraínui

Úkraínsk stjórnvöld hafa harðlega gagnrýnt kosningarnar sem efnt var til undir stjórn Rússa á hernumdum …