Home / Fréttir / NATO-floti sendur í Eyjahaf vegna flóttamannavandans

NATO-floti sendur í Eyjahaf vegna flóttamannavandans

Athafnasvæði NATO-flotadeilkdarinnar
Athafnasvæði NATO-flotadeilkdarinnar

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, sagði fimmtudaginn 11. febrúar að NATO yrði „tafarlaust“ við tilmælum Þjóðverja, Grikkja og Tyrkja um að senda flotasveit til Eyjahafs.
Á þennan hátt brást bandalagið við tilmælum sem Angela Merkel Þýskalandskanslari kynnti formlega miðvikudaginn 10. febrúar. Í fréttum segir að tilmælin hafi komið á óvart og ekki vakið hrifningu meðal allra aðildarríkjanna 28 þar sem ekkert samráð hefði verið haft í aðdraganda þeirra.
Markmiðið er að skipin leggi þeim lið sem berjast gegn þeim sem smygla fólki frá Tyrklandi til grísku eyjanna. Þegar Stoltenberg skýrði frá ákvörðuninni um að senda skipin á vettvang lagði hann áherslu á að átökin í Mið-Austturlöndum og upplausnin í Norður-Afríku væru ógn við öryggi NATO-ríkjanna. Flóttamannavandinn hefði aldrei verið meiri frá lokum síðari heimsstyrjldarinnar.
Flotadeildin heitir NATO Standing Maritime Group 2 og mun lúta stjórn þýsks flotaforingja. Í henni verða þrjú herskip í fyrstu en aðildarríkin hafa lofað að senda fleiri skip til þátttöku í störfum hennar. „Þetta snýst ekki um að hrekja flóttamenn til baka heldur er hér um að ræða mikilvægt eftirlit til að herða baráttuna gegn mansali og glæpagengjum,“ sagði Stoltenberg.

Skoða einnig

Úkraínuher segist hafa grandað rússnesku herskipi við Eystrasalt

Úkraínuher hefur tekist til þess að sökkva eða valda tjóni á 22 rússneskum herskipum á …