
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, sagði fimmtudaginn 11. febrúar að NATO yrði „tafarlaust“ við tilmælum Þjóðverja, Grikkja og Tyrkja um að senda flotasveit til Eyjahafs.
Á þennan hátt brást bandalagið við tilmælum sem Angela Merkel Þýskalandskanslari kynnti formlega miðvikudaginn 10. febrúar. Í fréttum segir að tilmælin hafi komið á óvart og ekki vakið hrifningu meðal allra aðildarríkjanna 28 þar sem ekkert samráð hefði verið haft í aðdraganda þeirra.
Markmiðið er að skipin leggi þeim lið sem berjast gegn þeim sem smygla fólki frá Tyrklandi til grísku eyjanna. Þegar Stoltenberg skýrði frá ákvörðuninni um að senda skipin á vettvang lagði hann áherslu á að átökin í Mið-Austturlöndum og upplausnin í Norður-Afríku væru ógn við öryggi NATO-ríkjanna. Flóttamannavandinn hefði aldrei verið meiri frá lokum síðari heimsstyrjldarinnar.
Flotadeildin heitir NATO Standing Maritime Group 2 og mun lúta stjórn þýsks flotaforingja. Í henni verða þrjú herskip í fyrstu en aðildarríkin hafa lofað að senda fleiri skip til þátttöku í störfum hennar. „Þetta snýst ekki um að hrekja flóttamenn til baka heldur er hér um að ræða mikilvægt eftirlit til að herða baráttuna gegn mansali og glæpagengjum,“ sagði Stoltenberg.