Home / Fréttir / NATO eykur viðbúnað á Eystrasalti vegna skemmdarverka

NATO eykur viðbúnað á Eystrasalti vegna skemmdarverka

AWACS-vélar á vegum NATO hafa verið við eftirlit á Eystrasalti.

Eftirlit hefur verið aukið undir merkjum NATO á Eystrasalti eftir að Finnar og Svíar tilkynntu atvik sem varð sunnudaginn 8. október þegar neðansjávarleiðslur og strengir annars vegar frá Eistlandi til Finnlands og hins vegar frá Eistlandi til Svíþjóðar urðu fyrir tjóni.

Dylan White, talsmaður NATO, sagði fimmtudaginn 19. október að drónar, eftirlitsflugvélar og skip hefðu verið send á vettvang í Eystrasalti til að auka þar aðgæslu. Bandalagið myndi stíga öll nauðsynleg skref til að gæta öryggis aðildarþjóða sinna.

NATO hefur endurskipulagt stjórnkerfi herja aðildarlandanna með það fyrir augum að betur sé litið eftir öryggi grunnvirkja neðansjávar. Hætta er talin hafa aukist á því að Rússar valdi tjóni á leiðslum og strengjum á hafsbotni til að refsa NATO-þjóðum fyrir stuðning þeirra við Úkraínumenn.

Sænsk yfirvöld skýrðu þriðjudaginn 17. október frá því að grunur hefði vaknað um að unnið hefði verið tjón á fjarskiptastreng á hafsbotni milli Eistlands og Svíþjóðar. Töldu yfirvöldin hugsanlegt að tengja mætti þetta skaða á gasleiðslu og fjarskiptastreng á hafsbotni milli Eistlands og Finnlands.

Finnsk yfirvöld telja að tjónið hafi verið unnið sunnudaginn 8. október en þá sigldu rússneskur ísbrjótur og kínverskt kaupskip, Newnew Polar Bear, um þessar slóðir.

Þegar varnarmálaráðherrar NATO-ríkjanna hittust á fundi 11. og 12. október í Brussel sagði Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO: „Verði sannað að ráðist hafi verið af ásetningi á mikilvæg grunnvirki NATO-þjóða er þetta auðvitað alvarlegt og verður brugðist við sameiginlega á markvissan hátt.“

 

 

 

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …