
Bandaríski tundurspillirinn USS Donald Cook, búinn varnarkerfi gegn flugskeytum, er venjulega á Spáni en hann hefur oft heimsótt Svartahaf undanfarið og verið vel fagnað í úkraínsku hafnarborginni Odessa.
Í janúar var skipið í Batumi og tók þátt í æfingu með strandgæslu Georgíu. Nú er skipið í Odessa. Petro Poróshenko, forseti Úkarínu, hitti þriðjudaginn 26. febrúar Kurt Volker, sérlegan fulltrúa Bandaríkjastjórnar gagnvart Úkraínu, um borð í herskipinu. Forsetinn sagði fundinn „táknrænan“ og í dvöl tundurspillisins í Odessa fælust „mikilvælg skilaboð til Kremlar“ um að Krímskagi væri hluti Úkraínu „og siglingafrelsi á svæðinu [væri] tryggt“.
NATO hefur ákveðið að láta meira að sér kveða á Svartahafi. Rússneski Svartahafsflotinn fylgist náið með þessari þróun. Fyrir utan Donald Cook er einnig hópur tundurduflaslæðara á vegum NATO á þessum slóðum undir forystu þýska skipsins FSG Werra. Bandaríska landgönguskipið USS Fort McHenry var á Svartahafi í desember og breska eftirlitsskipið HMS Echo var í Odessa.
Þessi auknu NATO-umsvif má rekja til atviks í nóvember 2018 þegar Rússar hertóku þrjá úkraínska gæslubáta í Kerch-sundi sem tengir Svartahaf og Azov-haf.
Um miðjan febrúar sagði Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, að bandalagið íhugaði að „efla frekar“ viðveru sína á Svartahafi. Rússneskir stjórnmálamenn sögðu þetta „ögrun“. Montreux-samkomulagið frá 1936 setur umsvifum NATO-skorður. Samkomulagið veitti Tyrkjum full ráð yfir Hellusundi (Bosporus). Herskip landa sem ekki eiga lönd að Svartahafi mega ekki vera lengur en 21 dag á hafinu. Stærð skipanna er einnig takmörkuð.