Home / Fréttir / NATO: Evrópuríki og Kanada auka útgjöld sín til varnarmála

NATO: Evrópuríki og Kanada auka útgjöld sín til varnarmála

topillunatos-forsvarsudgifter

Á árinu 2020 jukust útgjöld til varnarmála í Evrópu og Kanada meira en nokkru sinni fyrr. Það eru einkum fyrrverandi aðildarríki Varsjárbandalagsins í Austur-Evrópu sem efla herstyrk sinn en sama þróun er alls staðar í Evrópu. Ekkert bendir til að snúið verði af þessari braut þótt Donald Trump Bandaríkjaforseti hverfi úr embætti en afstaða hans til NATO og varna Evrópu mótaðist mjög af reiði yfir hve Bandaríkjamenn bæru stóran hlut af kostnaði við varnir NATO-ríkjanna.

Til marks um fjárfestingar í vopnabúnaði segir í danska blaðinu Jyllands-Posten frá því að Litháar hafi fest kaup á fjórum Sikorsky UH-60M Black Hawk-þyrlum, tæplega hundrað brynvörðum Boxer-fólksflutningabílum, Nasams-loftvarnakerfi, 18 PzH2000 skriðdrekum og 300 Unimog-flutningabílum frá Daimler.

Litháar hafa undanfarin sex ár nær þrefaldað útgjöld sín til varnarmála úr 2,4 milljörðum d.kr. í 6,7 mia. d.kr (um 145 mia. ISK).

Í blaðinu er rætt við Andrius Vilkauskas, sérfræðing um varnir Litháens, sem segir að útgjöld til varnarmála hafi hækkað nær umræðulaust vegna þess hve ógnin af Rússum varð áþreifanleg eftir innlimun þeirra á Krímskaga árið 2014 og með vaxandi áreiti þeirra í garð Úkraínumanna. Litháum sé ljóst að þeir verði sjálfir að treysta eigið öryggi, sú þjóð sem geri það ekki búi í haginn fyrir erlent hernámslið í landi sínu. Það yrði enn dýrkeyptara en að huga beint að eigin öryggi og verja fjármunum til að tryggja það.

Í danska blaðinu er vísað til upplýsinga frá NATO sem sýna útgjöld einstakra ríkja til varnarmála frá 1970 á föstu 2015-verðlagi. Miðað við það var ákveðnu hámarki náð árið 2020 þegar ríki Evrópu og Kanada vörðu meira fé til varnarmála en nokkru sinni fyrr eða 312,9 mia. dollara. Fyrra hámarki náðu útgjöld ríkjanna árið 1990 þegar þau voru 304,7 mia. dollara (fyrir utan útgjöld Bandaríkjamanna).

Kalda stríðinu lauk 1990 og Varsjárbandalagið, hernaðarbandalag Sovétríkjanna, hvarf úr sögunni. Þá drógu NATO-ríkin fljótt úr varnarútgjöldum sínum. Árið 2014 hafði fjárhæð þeirra lækkað í 250 mia. dollara (fyrir utan útgjöld Bandaríkjamanna).

Í Jyllands-Posten er rætt við Jens Ringsmose, prófessor við Syddansk Universitet, sem segir að ýmsar skýringar séu á þróun hernaðarlegra útgjalda NATO-ríkjanna. Þar skipti þó mestu hvernig Rússar, gömlu höfuðandstæðingar NATO, hagi sér.

Rannsókn prófessorsins sýnir að varnarútgjöld aukist mest í löndum nálægt Rússlandi. Í Litháen sé til dæmis mun auðveldara að skýra nauðsyn aukins vopnabúnaðar en í Portúgal.

Þá verði einnig að líta til þess sem Donald Trump, forseti Bandaríkjanna frá 2017, hefur lagt af mörkum til umræðna um hlut Evrópumanna. Trump boðaði að Bandaríkjamenn kynnu að flytja allan herafla sinn frá Evrópu ef Evrópuríkin ykju ekki eigin útgjöld til varnarmálanna.

natos-forsvarsudgifter
Samantekt Jyllands-Posten á útgjöldum NATO-ríkja til varnarmála

Árið 2020 voru útgjöld Evrópuríkja og Kanada að meðaltali 1,8% af vergri landsframleiðslu, VLF. Árið 1970 var hlutfall Evrópuríkja og Kanada 3,9% af VLF. Árið 2014/15 var talan 1,4% af VLF.

NATO-ríkin eru nú 30 og aðeins fá þeirra ná nú 2%-marki sem að er stefnt 2024. Hlutfall Bandaríkjanna er hæst. Grikkir eru með næsthæsta hlutfallið. Sú staðreynd sýnir að það gefur ekki endilega rétta mynd af hæð útgjaldanna að miða hlutfallið við verga landsframleiðslu. Í 10 ár hafa Grikkir glímt við gífurlegan efnahagsvanda þar sem landsframleiðslan hefur minnkað mikið. Jafnframt ber að hafa í huga að í Grikklandi er tiltölulega auðvelt fyrir stjórnmálamenn að tala fyrir auknum hernaðarútgjöldum vegna ótta almennings við Tyrki.

Allt frá því að skipuleg endurreisn herafla í vesturhluta Evrópu undir merkjum NATO hófst á sjötta áratugnum hafa ráðamenn í Bandaríkjunum kvartað undan þyngri byrðum á bandaríska skattgreiðendur en evrópska. Með Donald Trump birtist þessi óánægja á ruddalegri hátt opinberlega í Washington en áður hafði verið. Þrýstingurinn þaðan á Evrópuríkin minnkar ekki við að Joe Biden verði forseti þótt orðbragð og framkoma breytist.

Annar tónn er í ESB-umræðum um varnarmál en áður var. Viðurkennt er að vilji ESB-ríkin styrkja stöðu sína sem sjálfstætt afl á alþjóðavettvangi verði þau að styrkja ESB-stoð varnarsamstarfsins við Bandaríkin.

Heiko Maas og Jean-Yves Le Drian, utanríkisráðherrar Þýskalands og Frakklands, sögðu í sameiginlegri grein í The Washington Post eftir að Joe Biden sigraði Trump í forsetakosningunum:

„Evrópa hefur breyst til batnaðar. Við Evrópubúar veltum því ekki aðeins fyrir okkur hvað Bandaríkjamenn geti gert fyrir okkur heldur hvað við eigum að gera sjálfir til að gæta eigin öryggis og koma á meira jafnvægi í samstarfinu yfir Atlantshaf.“

Bandaríkin bera nú 70% kostnaðarins af vörnum NATO.

 

 

Skoða einnig

Málstofan „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ komin á Netið

Ánægjulegt að deila hér samantekt á nýlegu málþingi Varðbergs „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ sem …