Home / Fréttir / NATO býr í haginn fyrir Úkraínu

NATO býr í haginn fyrir Úkraínu


Jens Stoltenberg ´æi Brussel 3. apríl 2024.

Utanríkisráðherrar NATO-ríkjanna koma saman í Brussel miðvikudaginn 3. apríl. Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri bandalagsins, sagði fyrir fundinn að NATO hefði verið stofnað fyrir 75 árum „um eitt, hátíðlegt loforð: árás á eina bandalagsþjóð er árás á þær allar“.

Stoltenberg fagnaði því að bandalagsríkin legðu sig fram um að láta Úkraínumönnum í té vopn, skotfæri og tæki. Hann sagði að yrði hlé á þessum stuðningi hefði það afleiðingar á vígvellinum. Hvatti Stoltenberg til þess að gerð yrði áætlun til langs tíma um stuðning við Úkraínu.

Á fundi sínum munu ráðherrarnir ræða hvernig NATO geti tekið meiri ábyrgð á því að samræma aðgerðir vegna hergagna og þjálfunar í þágu Úkraínu fyrir utan að tryggja fjárhagslegan stuðning við landið til margra ára.

Rætt er um að stofnaður verði 100 milljarða evru sjóður til fimm ára til stuðnings Úkraínu.

Litið er á þessi áform sem viðleitni af hálfu NATO til að draga úr óvissu um stuðning við Úkraínumenn sem leiðir af pólitískum átökum þar sem Donald Trump og stuðningsmenn hans meðal repúblikana vilja setja skorður við þessum stuðningi.

Jens Stoltenberg segir að ekki sé spurning hvort Úkraína gangi í NATO heldur hvenær það gerist. Ráðamenn í Moskvu verði að átta sig á því að þeir nái ekki markmiðum sínum á vígvellinum og þeir geti ekki vænst þess að NATO hverfi frá stuðningi við Úkraínu.

Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra situr ekki ráðherrafundinn í Brussel vegna umræðna hér í vikunni um áhrif þess ef Katrín Jakobsdóttir ákveður að bjóða sig fram til forseta.

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …