
Evrópuherstjórn NATO (SHAPE) hefur tilkynnt að bandaríski flugherinn muni halda uppi loftrýmisgæslu við Ísland frá Keflavíkurflugvelli á fjögurra mánaða tímabili frá 1. janúar til 30. apríl, hvort orrustuþotur Bandaríkjanna verða hér allan þennan tíma hefur ekki verið staðfest opinberlega.
Í ár voru Bandaríkjamenn hér við loftrýmisgæslu frá 13. apríl og fram í miðjan maí, það er um einn mánuð eins og venja er. Auk Bandaríkjamanna komu hingað tvær aðrar flugsveitir í ár, frá flugher Tékka undir 23. júlí og Dana 1. september, hvor sveit var við störf á Keflavíkurflugvelli í um það bil mánuð.
Landhelgisgæsla Íslands (LHG) annast framkvæmd þessara verkefna af Íslands hálfu Í frétt LHG um komu bandarísku flugsveitarinnar í apríl segir að alls hafi um 200 bandarískir liðsmenn tekið þátt í verkefninu og til viðbótar starfsmenn frá stjórnstöð NATO í Uedem, Þýskalandi (Combined Air Operations Center). Flugsveitin kom þá til landsins með fjórar F-15 orrustuþotur og eina KC-135 eldsneytisbirgðaflugvél.
Gert er ráð fyrir aðflugsæfingum að varaflugvöllum á Akureyri og Egilsstöðum á tímabilinu 15. – 17. apríl.
Tékkar sendu nú í annað sinn herflugsveit til að taka þátt í þessu NATO-verkefni. Lauk verkefninu af hálfu Tékka föstudaginn 28. ágúst þegar fimm JAS-39 Gripen-orrustþotur lentu heilu og höldnu á herflugvellinum í Caslav í Tékklandi. Á leiðinni frá Íslandi fengu vélarnar oftar en einu sinni eldsneyti á lofti úr ítalskri KC-767 tankvél.
Skömmu fyrir brottför tékknesku vélanna héðan eða dagana 24. og 25. ágúst kom Martin Stropnický, varnarmálaráðherra Tékklands, hingað til lands með öðrum æðsta herforingja Tékka til að kynna sér aðstæður og starf flugsveitarinnar. Alls voru um 70 tékkneskir hermenn hér við störf.
Frank Gorenec hershöfðingi, yfirmaður bandaríska flughersins í Evrópu og yfirmaður sameiginlegrar flugherstjórnar NATO, kom í heimsókn hingað 25. ágúst og hitti meðal annars liðsmenn tékknesku flugsveitarinnar.
Tékkneski flugherinn er stöðugt til taks til að verja lofthelgi Tékklands en vélar hans hafa tvisvar sinnum (2009 og 2012) verið við NATO-loftrýmisgæslu í Eystrasaltslöndunum, Hér á landi voru einnig tékkneskar orrustuþotur á árinu 2014.Í frétt tékkneska varnarmálaráðuneytisins um loftrýmisgæsluna á Íslandi segir að tékkneski varnarmálaráðherrann hafi boðað að Tékkar sendu til Íslands vélar að nýju á þriðja ársfjórðungi árið 2016.
Danski flugherinn sendi 60 liðsmenn og fjórar F-16 orrustuþotur til að taka þátt loftrýmisgæslunni 1.september til 2. október 2015.
Tvær langdrægar rússneskar herflugvélar af gerðinni Tupolev Tu-142 F og J, en þessi tegund er oftast nefnd „Björninn“, flugu inn í loftrýmiseftirlitssvæði Atlantshafsbandalagsins í nágrenni Íslands rétt fyrir miðnætti 18. mars 2015, sagði í frétt LHG frá 19. mars 2015. Vélarnar væru meðal annars hannaðar til kafbátaeftirlits, kafbátaleitar og fjarskipta.
Í fréttinni sagði einnig:
„Fylgst var með vélunum í loftvarnaeftirlitskerfi Atlantshafsbandalagsins hér á landi sem vinnur úr gögnum frá ratsjárkerfi sem Landhelgisgæslan rekur og staðsett er í hverjum landsfjórðungi. Vélarnar komu inn í loftrýmiseftirlitssvæðið norðaustur af Íslandi og voru á flugi í um eina klst. 80 sjómílur suðaustur af Stokksnesi. Þær voru auðkenndar á leiðinni til Íslands af norskum orrustuþotum en stjórnstöð Landhelgisgæslunnar á Keflavíkurflugvelli hafði eftirlit með fluginu þann tíma sem vélarnar voru í nágrenni við Ísland og tryggði flugöryggi í samvinnu við aðgerðastjórnstöð Atlantshafsbandalagsins í Uedem í Þýskalandi og flugleiðsögu Isavia.
Landhelgisgæslan sinnir daglegu loftrýmiseftirliti í samvinnu við Atlantshafsbandalagið. Eftirlit með flugi rússnesku herflugvélanna er hluti af framkvæmd loftrýmiseftirlits og loftrýmisgæslu bandalagsins við Ísland. Starfsmenn Landhelgisgæslunnar starfa í stjórnstöðinni í Keflavík og sinna eftirlitinu fyrir hönd Íslands.“
LHG sendi fyrr á árinu, 19. febrúar 2015, frá sér aðra frétt þess efnis að aldrei fyrr en þá hefðu rússneskar hervélar flogið jafnnærri landinu frá brottför varnarliðsins. Í fréttinni sagði:
„Tvær langdrægar rússneskar sprengjuflugvélar af gerðinni Tupolev Tu-95, en þessi tegund er oftast nefnd „Björninn“, flugu inn í loftrýmiseftirlitssvæði NATO í nágrenni Íslands upp úr hádegi í gær. Rússneskar herflugvélar hafa ekki flogið svo nærri landinu frá brotthvarfi bandaríska hersins, en sprengjuvélarnar flugu tvisvar framhjá landinu, í síðara skiptið mjög nálægt ströndum Íslands og voru þær í 26 sjómílna fjarlægð frá Stokksnesi þegar næst var.
Fylgst var með vélunum í loftvarnaeftirlitskerfi NATO hér á landi sem vinnur úr gögnum frá ratsjárkerfi sem Landhelgisgæslan rekur og staðsett er í hverjum landsfjórðungi. Vélarnar komu inn í loftrýmiseftirlitssvæðið austur af Íslandi og héldu í suðurátt að Bretlandi og Írlandi. Þar voru þær auðkenndar af breskum orrustuþotum en stjórnstöð Landhelgisgæslunnar á Keflavíkurflugvelli (NATO Control and Reporting Center) hafði eftirlit með fluginu þann tíma sem vélarnar voru hér við land og tryggði flugöryggi í samvinnu við aðgerðastjórnstöð NATO (Combined Air Operation Center) í Uedem í Þýskalandi og flugleiðsögu Isavia.
„Birnirnir“ tveir sneru við síðdegis norður af Bretlandi og flugu sem leið lá aftur að Íslandi, meðfram suðurströnd Íslands og austur með landinu þar sem þær tóku beygju upp með Austurlandi og flugu loks aftur í norður í átt að Rússlandi.“