NATO efnir árlega til æfingar sem miðar að því að þjálfa og sanhæfa viðbrögð starfsmanna ráðuneyta og allra annarra borgaralegra starfsmanna og hermanna sem sinna öryggismálum og stjórn á hættutímum við yfirvofandi hættum, þar á meðal blendingsaðgerðum þar sem beitt öðru valdi en hervaldi til að ná fram markmiðum sínum í stjórnmálum og hermálum.
Svíar og Finnar taka þátt í æfingunni sem hófst 9. mars og stendur til 16. mars.
Í tilefni af æfingunni sagði Peter Christensen, utanríkisráðherra Dana:
„Þegar staðan í öryggismálum er jafn lifandi og flókin og um þessar mundir skiptir höfuðmáli að NATO sé til taks komi til hættuástands. Þetta á viðá öllum stigum. Næstu daga látum við reyna á ákvarðanaferla okkar og boðleiðir innan hersins – í Danmörku og innan alls bandalagsins. NATO er hornsteinn danskrar öryggis- og varnarstefnu – og það er mikilvægt að við treystum árvekni okkar bæði stjórnmálalega og hernaðarlega. Árleg æfing NATO í stjórn á hættutímum veitir okkur tækifæri til að láta á það reyna.“
Á ensku heitir æfingin Crisis Management Exercise (CMX), Hún nær til allra aðildarríkjanna auk Svíþjóðar og Finnlands og höfuðstöðva NATO í Brussel. Fastanefnd Íslands í höfuðstöðvunum tekur þátt í æfingunni fyrir Íslands hönd. Engum herafla verður beitt í æfingunni eða vegna hennar.
Sett verður á svið atburðarás þar sem reynir á 4. og 5. gr. NATO sáttmálans.
Í 4. gr. sáttmálans segir:
„Aðilar munu hafa samráð sín á milli, hvenær sem einhver þeirra telur friðhelgi landssvæðis einhvers aðila, pólitísku sjálfstæði eða öryggi ógnað.“
Í 5. gr. segir:
„Aðilar eru sammála um, að vopnuð árás á einn þeirra eða fleiri í Evrópu eða Norður-Ameríku skuli talin árás á þá alla; fyrir því eru þeir sammála um, ef slík vopnuð árás verður gerð, að þá muni hver þeirra í samræmi við rétt þann til eigin varnar og sameiginlegrar, sem viðurkenndur er í 51. grein sáttmála Sameinuðu bjóðanna, aðstoða aðila þann eða þá, sem á er ráðizt, með því að gera þegar í stað hver um sig og ásamt hinum aðilunum þær ráðstafanir, sem hann telur nauðsynlegar, og er þar með talin beiting vopnavalds, til þess að koma aftur á og varðveita öryggi Norður- Atlantshafssvæðisins. Tilkynna skal Öryggisráðinu tafarlaust allar þvílíkar vopnaðar árásir og allar ráðstafanir, sem gerðar eru vegna þeirra. Hætta skal slíkum ráðstöf-unum, þegar Öryggisráðið hefur gert þær ráðstafanir, sem nauðsynlegar eru til þess að koma á aftur og varðveita alþjóðafrið og öryggi.“
Finnar hafa tekið þátt í þessum æfingum síðan 1998 þegar þeir urðu formlegir samstarfsaðilar NATO. Þetta er 20. æfing NATO af þessu tagi síðan 1992.