
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, var í Þrándheimi mánudaginn 20. júní og flutti ávarp við upphaf 10 daga flotaæfingar NATO í hafinu fyrir norðan Ísland. Æfðar eru aðgerðir gegn kafbátum. Rússneskir kafbátar sækja um þetta hafsvæði frá höfnum á Kóla-skaga á leið sinni suður Atlantshaf. Í kalda stríðinu var meginvarnarlína NATO gegn sovéskum kafbátum dregin frá Grænlandi um Ísland til Skotlands, í GIUK-hliðinu.
Ine Marie Eriksen Søreide, varnarmálaráðherra Noregs, var einnig um borð í norsku freigátunni Fridtjof Nansen þegar formlega var tilkynnt um upphaf æfingarinnar. Í ávarpi sínu minnti Stoltenberg á að haf næði yfir 70% af yfirborði jarðar og 90% af vörum væru flutt um borð í skipum. Hann lagði áherslu á að NATO yrði að hafa getu til að láta að sér kveða á hafinu, yfir hafinu og í undirdjúpunum.
Um þrjú þúsund sjóliðar og flugmenn frá átta NATO-ríkjum (Bandaríkjunum, Bretlandi, Frakklandi, Kanada, Noregi, Spáni, Tyrklandi og Þýskalandi) taka þátt í æfingunni Dynamic Mongoose. Fjórir kafbátar frá Bandaríkjunum, Kanada, Noregi og Þýskalandi auk níu herskipa og fjögurra eftirlitsflugvéla koma við sögu í æfingunni. Æfingasvæðið í Noregshafi spannar 14.000 fersjómílur.
Kafbátum er siglt um svæðið og þeirra er leitað af flugvélum og herskipum sem reyna að granda þeim. Þá er kafbátum einnig beitt gegn herskipum sem sigla um svæðið. Þetta er í fjórða sinn sem efnt er til æfingarinnar Dynamic MongooseI. Áður hefur hún verið 2012, 2014 og 2015.