Home / Fréttir / NATO-aðild Úkraínu til umræðu í Moldóvu og Osló

NATO-aðild Úkraínu til umræðu í Moldóvu og Osló

Fjölskyldumynd frá leiðtogafundinum í Moldóvu.

Í gær (1. júní) lauk tveggja daga óformlegum utanríkisráðherrafundi NATO-ríkjanna í Osló. Þá var einnig í gær efnt til óformlegs leiðtogafundar Evrópuþjóða í Bulboaca í Moldóvu undir merkjum þess sem kallast Evrópuvettvangurinn og má rekja til tillögu sem Emmanuel Macron Frakklandsforseti flutti til að skapa evórpskan samráðsvettvang leiðtoga innan og utan ESB. Taldi forsetinn að með því drægi úr þrýstingi og óskum um aðild að Evrópusambandinu (ESB) til að „sitja við borðið“ við töku ákvarðana um framtíð Evrópu.

Á báðum þessum fundum var rætt um stríðið í Úkraínu og leiðir til að ljúka því samhliða aðild Úkraínu að NATO og ESB. Á báðum fundunum ríkti mikil samstaða sem sannaði enn og aftur að innrás Rússa í Úkraínu hefur eflt samstarfstengsl Evrópuríkjanna en ekki aukið sundurlyndi milli þeirra eins og var eitt af markmiðum Vladimirs Pútins Rússlandsforseta með innrásinni. NATO er mun öflugra nú en var fyrir innrásina.

Margir óttast að átökin í Úkraínu breytist í langvinnt þrátefli. Stjórnvöld Vesturlanda sem varið hafa milljörðum dollara til að  hervæða Úkraínumenn og aðstoða þá við að verja land sitt líta nú til framtíðar og velta fyrir sér hvernig vinna beri að því að Úkraína verði aðili að NATO en áhuga Úkraínumanna á aðild að bandalaginu má rekja aftur til ársins 2008.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, sagði að loknum utanríkisráðherrafundinum í Osló að það væri undir stjórn Úkraínu og stjórnum NATO-landanna komið hvernig samstarfinu yrði háttað til frambúðar. Ekkert annað ríki ætti þar hlut að máli, síst af öllu Rússar.

Á fundinum í Moldóvu sagði Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti að land sitt væri tilbúið til að ganga í NATO og biði aðeins eftir svari bandalagsins.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sat fundinn í Moldóvu og sagði á vef stjórnarráðsins að honum loknum:

„Á fundinum var áréttuð samstaða Evrópuþjóða með Úkraínu og mikilvægi þess að tryggja réttlátan frið í Evrópu. Staðreyndin er sú að óstöðugleiki í einu Evrópuríki ógnar stöðugleika í öðrum. Þess vegna er svo mikilvægt að Evrópa vinni saman að því að bæta hag allra ríkja, ekki síst þeirra sem eru hvað verst sett og hafa setið eftir í efnahagsþróun. Í þessu ljósi var mikilvægt að hittast í Moldóvu sem er í miklu návígi við stríðið í Úkraínu og er undir stöðugum þrýstingi frá Rússlandi.“

Ráðherrafundur NATO í ráðhúsinu í Osló.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra sat NATO-fundinn í Osló og sagði að honum loknum á vef stjórnarráðsins:

„Fundurinn gaf okkur kost á að skiptast á skoðunum á opinn og hreinskiptinn hátt. Umræðurnar undirstrikuðu enn einu sinni mikla samstöðu með Úkraínu. Skilaboð fundarins í dag eru samstaða bandalagsríkja um að halda áfram að styðja við varnarbaráttu úkraínsku þjóðarinnar og gera henni kleift að sigrast á innrásarher Rússa. Þetta verða án efa einnig skilaboð leiðtoganna í sumar.“

Leiðtogar NATO-ríkjanna koma saman í Vilníus, höfuðborg Litháens, um miðjan júlí 2023.

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …