Home / Fréttir / NATO-aðild styrkir norrænt varnarsamstarf

NATO-aðild styrkir norrænt varnarsamstarf

Vanarmálaráðherrar: Pål Johnson Svíþjóð, Bjørn Arild Gram Noregi og Antti Kaikkonen Finnlandi í Osló 22. nóvember 2022.

Antti Kaikkonen, varnarmálaráðherra Finnlands, Pål Johnson, varnarmálaráðherra Svíþjóðar, og Bjørn Arild Gram, varnarmálaráðherra Noregs, rituðu þriðjudaginn 22. nóvember undir samning um varnarsamstarf ríkjanna þriggja sem miðar að því að samhæfa aðgerðir þeirra í hánorðri ríkjanna þriggja, eða á Nordkalotten eins og segir í norskri fréttatilkynningu um undirritunina sem fór fram í tengslum við fund norrænu varnarmálaráðherranna í Osló.

Norski varnarmálaráðherrann sagði að aðild Finna og Svía að NATO opnaði nýjar samstarfsleiðir í varnarmálum sem styrktu öryggi þjóðanna þriggja. Með því að færa samstarfið í þann búning sem nú hefði verið gert væri unnt að samhæfa aðgerðir ríkjanna þriggja á hættu- og átakatímum eins og þau væru öll í NATO. Það væri mikilvægt skref í norrænni samvinnu.

Norðmenn hafa leitt norræna varnarsamstarfið (NORDEFCO) undanfarið eitt ár og nýtt tímann meðal annars til að búa það undir breyttar aðstæður eftir NATO-aðildarumsókn Finna og Svía. Ríkin fimm sem eiga aðild að NORDEFCO eru einhuga um að halda samstarfinu áfram og NATO-aðild þeirra allra breyti engu um gildi þess. Svíar taka nú við formennsku í NORDEFCO.

Norski varnarmálaráðherrann sagði að samstarf Norðurlandanna um varnar- og öryggismál mundi aukast á næstu árum en ekki minnka.

Danir og Íslendingar eiga aðild að NORDEFCO auk Finna, Norðmanna og Svía.

Í frétt um varnarmálaráðherrafundinn núna segir að norrænu ríkin hafi lagt fram stuðning við Úkraínumenn, sem meta megi á 1,7 milljarða evra, eftir að Rússar réðust á þá. Þarna er um að ræða borgaralegan, mannúðlegan og hernaðarlegan stuðning.

Í tilkynningu varnarmálaráðherranna segir að þeir láti ógnanir Rússa eða hótanir  um beitingu kjarnavopna ekki setja sér neinar skorður.

Andreas Krog, ritstjóri hjá vefsíðunni Altinget.dk, sagði 22. nóvember frá því að norðurslóða sendiherra Rússa hefði haldið uppi vörnum fyrir aukið samstarf Rússsa við Kínverja í norðri. Jafnframt hefði sendiherrann gagnrýnt umsvif NATO sem birtust í heræfingum með þjóðum utan norðurslóða eins og Bretum.

Í samningi ríkjanna þriggj sem ritað var undir 22. nóvember er gert ráð fyrir æfingum þeirra með ríkjum sem ekki eru norðurslóðaríki, það er eiga aðild að Norðurskautsráðinu.

„Með aðild Finna og Svía að NATO hefst nýr áfangi í norrænu samstarfi um öryggismál. Þetta mun hafa áhrif á öryggismál í nágrenni okkar og í þágu varna Norðurlandanna. Nefna má eitt skýrt dæmi um breytinguna: Norðmenn hafa haft frumkvæði að því að æfingunni Cold Response 2024 verði breytt í Nordic Response. Þar verður látið reyna á samhæfingu, móttöku herafla frá bandalagsríkjum og liðveislu í samstarfi við norræna nágranna okkar innan ramma bandalagsins,“ sagði Bjørn Arild Gram, varnarmálaráðherra Noregs.

Heimild: Altinget.no

.

 

 

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …