Home / Fréttir / NATO á norðurslóðum: Stjórnmálamenn verða að huga að aukinni kafbátaógn

NATO á norðurslóðum: Stjórnmálamenn verða að huga að aukinni kafbátaógn

 

Rússneskur Delta-kafbátur.
Rússneskur Delta-kafbátur.

 

NATO-æfingunni Cold Response lauk í Noður-Noregi 22. mars en frá 19. febrúar höfðu um 16.000 hermenn frá 13 löndum tekið þátt í henni. Markmið æfingarinnar er að þjálfa menn til átaka í köldum vetrarveðrum á norðurslóðum. Í æfingunum reynir einnig á þann búnað sem bandaríski herinn hefur komið fyrir í Noregi og nýtist landgönguliðum.

Bandaríski herinn hefur haft búnað í vopnageymslum í Noregi síðan samið var um slíkar geymslur á árinu 1981. Upphaflegi tilgangur samningsins var að styrkja varnir NATO gegn herafla Sovétríkjanna. Hann er enn í gildi og hefur þess verið gætt að viðhalda og endurnýja búnaðinn enda telja Bandaríkjamenn og Norðmenn sig hafa sameiginlegan hag af því. Um er að ræða geymslur í stórum hellum þar sem finna má nægan tækjakost fyrir 15.000 landgönguliða til 30 daga aðgerða.

Árið 2014 var samningurinn víkkaður svo að fleiri tæki féllu undir hann eins og M1 skriðdrekar, dráttartæki, brynvarin tæki og landgönguprammar.

Í tilefni af æfingunni ræddi Jacob Bojesson fyrir Daily Caller við Eystein Kvarving, talsmann yfirherstjórnar Noregs. Hann lagði ríka áherslu á nauðsyn samningsins við Bandaríkin til að auðvelda komu liðsauka til Noregs á hættutímum.

Í grein sinni minnir Bojesson á aukna spennu vegna framgöngu Rússa gagnvart Úkrsínu síðan 2014. Þetta setji svip sinn á geopólitíska stöðu Noregs sem eigi landamæri að Rússlandi. Þá hafi herafli Rússa verið endurnýjaður og meðal rússneskra ráðamann gæti meiri vilja en áður til að beita hervaldi.

Karving segir að Norðmenn hafi auga með þessari þróun allri. Rússar ógni til dæmis Noregi meira en áður með nákvæmum skotflaugum sem senda megi til skotmarka í mikilli fjarlægð fyrir utan aukna hættu á tölvuárásum og hættu af beitingu rafeindavopna.

Karving segir að viðvörunartími Norðmanna hafi styst verulega, þeir hafi mun minni tíma en áður til að búast til varna. Þeir verði þess vegna að búa sig undir að svara hættumerkjum með miklu skemmri fyrirvara en áður var.

Minnt er á að um þessar mundir eigi Rússar og Norðmenn ekki í neinum deilum á norðurslóðum. Þeir vinni náið saman að auðlindagæslu í Norður-Íshafi. Rússar auki hins vegar herafla sinn jafnt og þétt á þessum slóðum og telji þeir það mikilvægan lið í að efla fælingarmátt sinn.

Blaðamaðurinn ræðir einnig við Jorge Benitez, forstöðumann NATOSource hjá Atlantic Council í Bandaríkjunum. Hann segir:

„Ég tel að einn þáttur sem vekur Norðmönnum áhyggjur dragi ekki að sér þá athygli sem hann á skilið en hann snýr að öryggi á höfunum og auknum umsvifum Rússa bæði í Noregshafi og Norður-Atlantshafi.“

Bojesson segir að með þessum orðum vísi Benitez til GIUK-hliðsins svonefnda, það er hafsvæðanna frá Grænlandi um Ísland til Bretlands. Þetta svæði sé einnig nálægt ströndum Noregs og þess vegna skipti öryggi Norðmanna miklu að NATO ráði yfir öflugum herflota á þessum slóðum.

Benitez segir við Daily Caller:

„Rússneskir kafbátar eru miklum mun aðsópsmeiri á þessum slóðum nú og þeir eru fleiri en nokkru sinni síðan í kalda stríðinu. Þarna er um verulega ógn að ræða sem dregur að sér einhverja athygli innan hersins en stjórnmálamenn verða að veita mun meiri athygli en til þessa.“

Sjá: http://dailycaller.com/2016/03/21/marines-increase-prepositioning-in-norway-as-russian-threat-grows/#ixzz44ChDNmm2It's gone. Undo

 

Skoða einnig

Rússar við Kharkiv – Úkraínumenn sækja á Krím

Rússar hafa sótt fram á nokkrum stöðum í Úkraínu undanfarna daga en yfirhershöfðingi NATO í …