Home / Fréttir / NATO: 4.000 hermenn með fasta viðveru í Eystrasaltsríkjunum og Póllandi

NATO: 4.000 hermenn með fasta viðveru í Eystrasaltsríkjunum og Póllandi

Ash Carter, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna.
Ash Carter, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna.

Innan NATO er unnið að því að senda fjögur herfylki – um 4.000 hermenn – til fastrar viðveru í Póllandi og Eystrasaltsríkjunum þremur. Með þessu á að svara vaxandi hernaðarumsvifum Rússa í nágrenni ríkjanna. Til þessa hafa 150 bandarískir hermenn farið á milli Eystrasaltslandanna þriggja.

Þetta kemur fram í The Wall Street Journal (WSJ) þriðjudaginn 3. maí. Talið er að tvö herfylkjanna verði bandarísk en auk þeirra eitt þýskt og annað breskt.

Í blaðinu er vitnað til Roberts Works, aðstoðarvarnarmálaráðherra Bandaríkjanna, sem var á ferð í Brussel í fyrri viku. Work var í Stokkhólmi 26. apríl og sat fund með háttsettum embættismönnum úr varnarmálaráðuneytum Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna. Segir WSJ að Work hafi staðfest heildarfjölda hermannanna og nauðsynlegt væri að virkja þá vegna hernaðarumsvifa Rússa við Eistland, Lettland og Litháen þar sem spenna magnaðist.

Í Jyllands-Posten er þriðjudaginn 3. maí vitnað í Ash Carter, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, sem sagði mánudaginn 2. maí í Þýskalandi, þar sem hann var í heimsókn, að eitt af því sem væri til umræðu væri að senda ofangreindan liðsafla til umræddra landa.

Í Þýskalandi hittir Ash Carter meðal annarra Curtis Scaparrotti hershöfðingja, verðandi yfirmann Evrópuherstjórnar NATO.

Í Jyllands-Posten er rætt við Johannes Riber Nordby, herfræðing við danska Forsvarsakademiet. Hann segir að ákvörðun um að fjölga hermönnum undir merkjum NATO í Eystrasaltsríkjunum komi ekki á óvart. Hins vegar sé ljóst að Rússar muni telja þetta ögrun við sig og öryggi Rússlands. Það séu gamalkunn viðbrögð sem meðal annars birtist þegar rætt sé um aðild Svíþjóðar að NATO.

Það sé hins vegar lítt sannfærandi að hlusta á kveinstafi Rússa því að þeir hafi valdið stefnubreytingu hjá NATO með framgöngu rússneska hersins í Úkraínu og á Eystrasalti þar sem rússneskar orrustuþotur hafi til dæmis nýlega ögrað bandarísku herskipi.

Frá því í fyrra hafa stjórnmálamenn og herforingjar í Eystrasaltsríkjunum og Póllandi hvatt til þess að fleiri erlendir hermenn undir merkjum NATO hefðu fasta viðveru í löndum sínum til að sýna samstöðu NATO-ríkjanna í verki.

Johannes Riber Nordby segir að Rússar láti sér ekki segjast við fjölgun NATO-hermanna við landamæri sín. Búast megi við fleiri ögrunum í ætt við náflugið við bandaríska tundurspillinn á dögunum. Honum finnst hins vegar ólíklegt að Rússar sendi skriðdrekasveitir inn í Eystrasaltsríkin þótt þeir hafi áfram hernaðarlega yfirburði á svæðinu hvað sem líður viðveru 4.000 hermanna frá þremur öflugum NATO-ríkjum.

 

 

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …