Home / Fréttir / Nágrönnum Rússa stendur ekki á sama um stóræfingu herja í nágrenni sínu

Nágrönnum Rússa stendur ekki á sama um stóræfingu herja í nágrenni sínu

Rússneskir hermenn á Krímskaga.
Rússneskir hermenn á Krímskaga.

Viðamikil heræfing Rússa og Hvít-Rússa, Zapad 2017, hefst í vikunni. Hún snýst um að verjast innrás hryðjuverkamanna frá þremur „ímynduðum“ Austur-Evrópulöndum. Hér verður stuðst við lýsingu þýsku fréttastofunnar  DW á heræfingunni.

Æfingin stendur í viku og hest fimmtudaginn 14. september. Liðssveitirnar sem notaðar verða í Zapad 2017 eru kallaðar „norðursveitirnar“ og þær eiga að verjast „vestursveitunum“ – þær eiga að koma frá þremur tilbúnum ríkjum, Vesbaria, Lubenia og Veishnoria.

Embættismenn Rússa og Hvít-Rússa segja að Vesbaria og Lubenía séu á Eystrasaltssvæðinu og ráða yfir svæðinu sem tengir rússnesku hólmlenduna Kaliningrad við Hvíta-Rússland. Þetta er það svæði sem lýtur stjórn  NATO-þjóðanna Litháa og Pólverja.

Veishnoria er hins vegar á Grodno-svæðinu í Hvíta-Rússlandi, við vesturlandamæri ríkisins.

Sjálfstæðir sérfræðingar telja þetta til marks um að ráðamenn í Minsk og Moskvu búi sig undir að verða ógnað af NATO-ríkjum og auk þess innan Hvíta-Rússlands. Grodno-svæðið virðist hafa sérstöðu vegna þess hve margir Pólverjar búa þar. Hernaðarsérfræðingar ríkjanna halda fast við þá skoðun að um „ímyndaðan óvin sé að ræða án tengsla við ákveðið svæði“.

„Öfgahópar hafa með leynd komist inn í Hvíta-Rússland og Kaliningrad í því skyni að fremja hryðjuverk. Þeir njóta stuðnings að utan og fá þaðan vopn og stuðning af sjó og úr lofti. Til þess að ná tökum á óvinunum verður beitt landher til að hindra aðgang þeirra að sjó og loka flugleiðum á svæðinu og leitað verður stuðnings frá flugher, loftvarnasveitum og flota,“ segir í opinberri lýsingu á æfingunni.

Markmið Zapad 2017 er að samhæfa aðgerðir milli svæðisbundinna herstjórna „í þeim tilgangi að tryggja hernaðarlegt öryggi“ segir í tilkynningu frá Rússum og Hvít-Rússum. Hlutverk Hvít-Rússa verður að koma í veg fyrir hernaðarátök og Rússa að veita pólitískan stuðning, fjárhagsaðstoð, tæknilega og hernaðarlega aðstoð.

Æfingin verður í tveimur áföngum. Í fyrri áfanganum verður flugher og loftvarnasveitum beitt til að verja lykil staði hers og stjórnvalda og undirbúa einangrun ólöglegu vígamennina og njósnasveita þeirra. Í seinni áfanganum verða gerða ráðstafanir til að ná tökum á vígamönnunum og hrinda árásinni á Rússland og Hvíta-Rússland.

Af hálfu stjórnvalda landanna er sagt að 12.700 hermenn taki þátt í æfingunni auk 70 flugvéla, 280 skriðdreka, 200 stórskotaliðsvopna, tíu herskipa og ýmissa annarra vopna og vígtóla. Þá verða þarna einnig fulltrúar rússnesku öryggis- og leynilögreglunnar FSB og utanríkis- og almannavarnaráðuneytanna.

Af hálfu NATO er dregið í efa að þessar tölur um þátttöku í æfingunni séu réttar. Ursula Von der Leyen, varnarmálaráðherra Þýskalands, segir að líklegra sé að hermennirnir verði um 100.000. Í alþjóðasamningum stendur hins vegar að séu þátttakendur í heræfingum fleiri en 13.000 verði að heimila alþjóðlegt eftirlit.

Talsmaður rússneska varnarmálaráðuneytisins sagði laugardaginn 9. september að hann væri „undrandi“ á fullyrðingu Von der Leyen og endurtók að innan við 13.000 hermenn tækju þátt í æfingunni. Rússar hafa boðið erlendum hermálafulltrúum að að fylgjast með æfingunni á lokastigi hennar í Rússlandi. Hvít-Rússar segja að þeir bjóði fulltrúum SÞ, NATO, ÖSE og fleirum til æfinganna.

Sjö miðstöðvar æfinganna verða í Hvíta-Rússlandi, ein í Kaliningrad og tvær í vesturhluta Rússlands. Miðstöðvarnar eru ekki nálægt landamærum nágrannaríkjanna.

NATO-nágrannar Rússa hafa áhyggjur af því þegar rússneski herinn efnir til æfinga nálægt landamærum þeirra. Sagan sýnir að rússnesk stjórnvöld settu á svið miklar heræfingar í aðdraganda innrásarinnar í Georgíu árið 2008 og innlimunar Krímskaga árið 2014. Sumir hafa meira að segja velt fyrir sér hvort ætlunin sé að nota rússneska herinn til að hernema Hvíta-Rússland, næsta nágranna sinn í Evrópu. Fleiri telja það þó afar ólíklegt.

Rússneska varnarmálaráðuneytið leggur áherslu á að heræfingin sé aðeins varnaræfing og hún ógni alls ekki neinum nágranna Rússlands né Evrópu almennt. Stjórnvöld í Hvíta-Rússlandi segja að 30. september verði allt herlið og öll hergögn landsins komin á sinn venjulega stað og rússneskt herlið á brott úr landinu.

 

Skoða einnig

Sænski forsætisráðherrann: Útilokar ekki kjarnavopn í stríði

Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, segir víðtæka samstöðu um að banna kjarnavopn á sænsku landsvæði á …