Home / Fréttir / Næsti forseti Zimbabwe ber viðurnefnið krókódíllinn

Næsti forseti Zimbabwe ber viðurnefnið krókódíllinn

Emmerson Mnangagwa
Emmerson Mnangagwa

Robert Mugabe, forseti og einræðisherra í Zimbabwe, hrökklaðist þriðjudaginn 21. október frá völdum eftir að hafa haldið þeim í 37 ár. Vakti þetta mikinn fögnuð almennings. Emmerson Mnangagwa, sem var hægri hönd Mugabes allan valdatíma hans og helsti málsvari, verður settur í forsetaembættið föstudaginn 24. nóvember. Gengið verður til forsetakosninga í landinu á næsta ári.

„Zanu-PF [stjórnarflokkurinn] er heilagur flokkur,“ sagði Emmerson Mnangagwa á baráttufundi Zanu-PF fyrr á þessu ári. „Hann mun stjórna og stjórna. Þeir sem gelta halda því áfram svo lengi sem Zanu-PF er við völd. Áfram Mugabe! Áfram Zanu-PF!„

Emmerson Mnangagwa var bolað úr embætti varaforseta fyrir nokkrum mánuðum og nú hefur hann hrakið Mugabe (93 ára) úr forsetaembættinu og forystu Zanu-PF. Emmerson Mnangagwa ber viðurnefnið krókódíllinn vegna kænskunnar sem hann sýndi í skæruliðabaráttunni fyrir sjálfstæði Zimbabwe.

„Ég sagði forsetanum að núverandi stjórnmála- og stjórnskipulega kreppa í landinu væri ekki vegna ágreinings milli hans og mín heldur á milli þjóðarinnar í Zimbabwe og Mugabe forseta,“ sagði Emmerson Mnangagwa í yfirlýsingu sem hann sendi fjölmiðlum þriðjudaginn 21. nóvember. „Þjóðin í Zimbabwe hefur talað skýrt í þessu máli. Í mínum huga er rödd þjóðarinnar rödd Guðs og hún hefur látið í ljós brest á trausti og trúnaði í garð forystu Mugabes forseta.“

Í fyrri viku setti herinn Mugabe í stofufangelsi og krafðist þess að Emmerson Mnangagwa fengi fyrra embætti sitt og Mugabe segði af sér. Atburðarásin hófst nokkru áður þegar Mugabe ýtti Mnangagwa, sem er mikils metinn meðal hermanna, til hliðar og sakaði hann um drottinssvik. Almennt var talið að með þessu ætlaði Mugabe að skapa rými fyrir Grace, 52 ára eiginkonu sína, sem nýtur engra vinsælda.

Emmerson Mnangagwa (75 ára) er enginn nýgræðingur. Hann hefur gegnt ýmsum ráðherraembættum síðan 1980. Hann var yfirmaður leyniþjónustunnar áður en hann var gerður að varaforseta árið 2014. Þá ýtti Mugabe þáverandi varaforseta, Joice Mujuru, til hliðar og er síðan fjandskapur á milli þeirra.

Með Emmerson Mnangagwa sem forseta sigrar eldri kynslóðin innan Zanu-PF. Hann er fulltrúi þeirra sem börðust fyrir sjálfstæði landsins. Hann hlaut viðurnefni sitt árið 1965, árið sem Grace Mugabe fæddist. Kynslóðin á aldur við Grace Mugabe stendur að hreyfingu innan flokksins sem kölluð er G40 og nýtti sér aðgang Grace að eiginmanni hennar til að koma ár sinni fyrir borð.

Chris Mutsvangwa, leiðtogi áhrifamikillar hreyfingar uppgjafahermanna, sagði að hreyfingin styddi Mnangagwa. Hann sagði að yngri kynslóðin hefði enga getu til að stjórna efnahag þjóðarinnar eins og óðaverðbólga sýndi.

Sérfræðingar í málefnum Zimbabwe setja fyrirvara um ágæti Emmersons Mnangagwas. Hann hafi borið ábyrgð á því sem kallað er Gukurahundi, fjöldamorðum undir forystu hersins á níunda áratugnum sem báru svip stjórnmála- og þjóðernisofsókna.

„Hann er margan hátt verri,“ sagði David Moore við Háskóla Jóhannesarborgar. Hann segir að Emmerson Mnangagwa hafi notið góðs af því á sínum tíma að óhæfuverk hans voru unnin í kalda stríðinu og að sumu leyti afsökuð vegna þess að andstæðingar Mugabes nutu stuðnings kommúnista í Suður-Afríku.

Mnangagwa hefur haft hægt um sig síðan hann var rekinn úr embætti varaforseta. Í yfirlýsingu hans frá þriðjudeginum 21. nóvember er þó að finna gagnrýni á Mugabe og stjórn hans fyrir „spillingu, getuleysi, ábyrgðar- og dugnaðarleysi, félagslega og menningarlega úrkynjun“.

Þegar menn velta fyrir sér hvers vegna Emmerson Mnangagwa kjósi að snúast gegn Mugabe núna rifja þeir upp ummæli sem hann lét falla í samtali fyrir tveimur árum þegar hann var spurður um viðurnefnið krókódíll:

„Hann fer aldrei inn i þorp eða skóginn í leit að fæðu. Hann slær á réttum tíma.“

Heimild: VOA

 

Skoða einnig

Tortryggni í garð Moskvuvaldsins vex í gömlu Sovétlýðveldunum

Stuðningur við forsystusveit Rússlands hefur hrapað í nágrannalöndum landsins. Íbúar landanna eru tortryggnir í garð …