Home / Fréttir / N-Makedóníuþing opnar leið til ESB-aðildarviðræðna

N-Makedóníuþing opnar leið til ESB-aðildarviðræðna

Fögnuður meirihlutans í þingsal N-Makedóníu.

Þing Norður-Makedóníu samþykkti laugardaginn 16. júlí umdeilda sáttatillögu Frakka í deilu  stjórnvalda N-Makedóníu og Búlgaríu og þannig opnað leið til viðræðna um aðild N-Makedóníu að ESB.

Stjórnarandstæðingar yfirgáfu þingsalinn í Skopje, höfuðborg N-Makedóníu, við atkvæðagreiðsluna en 68 af 120 þingmönnum samþykktu tillöguna sem gerð var í júní en var ekki birt opinberlega fyrr en nú. Vegna hennar hefur verið efnt til mótmæla daglega í Skopje og hafa þúsundir manna komið saman til að láta í ljós óánægju sína við stjórnarbyggingar í tvær vikur.

Nú eru 17 ár síðan N-Makedónía sótti um aðild að ESB. Þá settu Grikkir sig gegn aðild landsins vegna ágreinings um nafn þess. Lauk henni með samkomulagi árið 2019. Þá snerist stjórn Búlgaríu gegn aðildarviðræðum við N-Makedóníumenn.

Þáverandi ríkisstjórn Búlgaríu sagði að saga, menning og tunga N-Makedóníumanna ætti búlgarskar rætur.

Í sáttatillögu Frakka felst að  stjórn N-Makedóníu skuldbindur sig til að breyta stjórnarskránni og viðurkenna búlgarskan minnihluta í landinu og stofnanir ESB rannsaki árlega samskipti landanna tveggja.

Manntal frá árinu 2021 sýnir að um það bil 3.500 upprunalegir Búlgarar séu búsettir í N-Makedóníu þar sem 2,08 milljón manns búa.

Á undanförnum tveimur áratugum hafa um 97.000 Makedóníumenn fengið búlgarskan ríkisborgararétt, fjölgaði þeim eftir að Búlgaría gekk í ESB árið 2007.

Í fréttum segir að ekki verði auðvelt að breyta stjórnarskrá N-Makedóníu vegna þess að tveir þriðju þingmanna verði að samþykkja það. Hægrisinnaði stjórnarandstöðuflokkurinn VMRO-DPMNE segist ekki samþykkja breytinguna.

Hvað sem þeirri andstöðu líður fagna ráðamenn ESB niðurstöðu þingsins 16. júlí og sagði Urslua von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, að samþykktin opnaði leið til til að hefja aðildarviðræður með hraði. Sjálf fór hún til Skopje 14. júlí til að hvetja þingmenn til að samþykkja sáttatillöguna.

Stefnt er að því að hefja aðildarviðræður fulltrúa ESB og Albaníu og N-Makedóníu þriðjudaginn 19. júlí.

 

 

Skoða einnig

Sænskir jafnaðarmenn viðurkenna mistök í útlendingamálum

Sænskir jafnaðarmenn hafa látið vinna skýrslu um útlendingamál innan flokks síns þar sem komist er …