Home / Fréttir / N-Kóreustjórn leigir fólk úr landi til nauðungarvinnu

N-Kóreustjórn leigir fólk úr landi til nauðungarvinnu

Marzuki Darusman
Marzuki Darusman

Meira en 50.000 Norður-Kóreumenn hafa verið sendir úr landi til starfa, einkum í Rússlandi og Kína. Sérfræðingar Sameinuðu þjóðanna (SÞ) segja að um nauðungarvinnu sé að ræða. Marzuki Darusman sem samið hefur skýrslu um málið fyrir SÞ segir að stjórnvöld N-Kóreu auki útflutning á vinnuafli til að fara á svig við viðskiptaþvinganir og afla gjaldeyris.

Darusman telur að tekjur Norður-Kóreu vegna þessa séu 1,2 til 2,3 milljarðar dollara á ári. Langflestir eru sendir til Rússlands og Kína en einnig til 15 annarra landa, þ. á m. Alsír, Angóla, Kúvæt og Póllands.

Darusman er sérfræðingur SÞ í stöðu mannréttinda í N-Kóreu. Hann segir kjörin sem verkafólkinu þaðan séu boðin brjóta í bága við lög og reglur N-Kóreu og viðtökuríkjanna. Þá bendir hann á að fyrirtæki sem ráði þetta fólk í vinnu „verði þátttakendur í óviðunandi nauðungarvinnukerfi“.

Hann segir að flestir verkamennirnir frá N-Kóreu vinni við mannvirkjagerð, námugröft, skógarhögg og vefnað. Þeir viti ekkert um eigin kjör um þau sé samið við stjórnarskrifstofu í Pyongyang. Mannúðarsamtök segja að launin séu um 120 til 150 dollarar á mánuði. Fæði sé af skornum skammti og stundum sé krafist allt að 20 stunda vinnu á sólarhring. Hvíldardagur sé einn eða kannski tveir á mánuði.

Vinnuveitendur greiða hins vegar „umtalsvert hærri fjárhæðir“ til ríkisstjórnar N-Kóreu og segir Darusman að hún hagnist vel á þessum viðskiptum.

Um 90 N-Kóreumenn voru sendir heim frá Qatar fyrr á þessu ári. Verktakinn sem hafði þá í byggingarvinnu neyddi þá til að vinna 12 tíma á sólarhring og gaf þeim ekki nóg að borða. Í skýrslunni segir að einn úr hópnum haf látist vegna hinnar hörmulegu meðferðar.

Ekkert lát er á mannréttindabrotum í N-Kóeru. Aftökur eru stundaðar án dóms og laga, sömu sögu er að segja um fangelsanir, pyntingar, niðurlægjandi framkomu við fjölda fólks í pólitískum fangabúðum auk þess sem stéttaskipting leiðir til gífurlegs ójafnaðar þar sem frumþarfir sumra hópa eru hafðar að engu.

Darusman segir að markmið stjórnvalda með þessari grimmd sé að hræða fólk til hlýðni og undirgefni við sig. Hann hvetur öryggisráð SÞ til að vísa mannréttindabrotunum í N-Kóreu til Alþjóðasakamáladómstólsins. Líklegt er talið að fastafulltrúi Kína í öryggisráðinu muni beita neitunarvaldi gegn slíkri tillögu og hugsanlega einnig fulltrúi Rússa.

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …