
Ljósmynd sem stjórnvöld í N-Kóreu birtu sunnudaginn 5. maí sýnir þegar flaug er skotið á loft laugardaginn 4. maí. Hvorki ríkisstjórn S-Kóreu né N-Kóreu hafa sagt að um „tilraun með eldflaug“ sé að ræða. Engu að síður kom fram að Kim Jong-un, einræðisherra í N-Kóreu lýsti mikilli ánægju með ferð flaugarinnar út á Japanshaf.
Sjónvarpið í N-Kóreu sýndi þegar Kim Jong-un fylgdist með þegar flauginni var skotið á loft.
Þessi tilraun var gerð þrátt fyrir samkomulag Norður-Kóreumanna við Suður-Kóreumenn um að hætta öllum fjandsamlegum athöfnum. Stjórnin í S-Kóreu taldi um brot á samkomulagi þjóðanna að ræða.
Þarna var um skammdræga flaug að ræða sem virðist endurgerð á rússnesku hreyfanlegu, skammdrægu flauginni 9K720 Iskander. N-Kóreumenn segja að með flauginni megi senda kjarnaodda til skotmarka á öllum Kóreuskaganum.
Herinn í S-Kóreu sagði fyrst að um eldflaugaskot hefði verið að ræða en leiðrétti sig strax og sagði að þetta hefði verið „skeyti“.
N-Kóreumenn sögðu að um „sóknaræfingu“ hefði verið að ræða með vopnum sem féllu ekki undir bann Sameinuðu þjóðanna.
Donald Trump Bandaríkjaforseti sagðist fullviss um að N-Kóruemenn vildu halda áfram viðræðum um að eyða kjarnorkuvopnum sínum.
Trump sagði á Twitter að Kim Jong-un áttaði sig á tækifærum N-Kóreumanna til að bæta efnahag sinn og mundi ekki gera neitt til að eyðileggja þau. „Hann veit einnig að ég er með honum og vill ekki brjóta loforð sitt við mig. Samkomulag verður!“
Fréttaskýrendur túlka þessa framgöngu N-Kóreumanna á þann veg að þeir vilji auka þrýsting á Bandaríkjastjórn til að samþykkja takmarkaða kjarnorkuafvopnun.