Home / Fréttir / N-Kóerustjórn segir afstöðu Bandaríkjastjórnar „ákaflega hörmulega“

N-Kóerustjórn segir afstöðu Bandaríkjastjórnar „ákaflega hörmulega“

Mike Pompeo kemur til viðræðnanna í Pyongyang.
Mike Pompeo kemur til viðræðnanna í Pyongyang.

Norður-Kóreustjórn sakar Bandaríkjastjórn um að krefjast einhliða kjarnorkuafvopnunar og segir afstöðu hennar „ákaflega hörmulega“. Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir annað eftir fundi sína í Pyongyang, höfuðborg N-Kóreu, föstudaginn 6. júlí og laugardaginn 7. júlí. Utanríkisáðherrann sagði fundina hafa verið „árangursríkan“.

Nú er tæpur mánuður frá því að Donald Trump Bandaríkjaforseti og Kim Jong-un, einræðisherra í N-Kóeru, hittust í Singapúr. Fór Pompeo til fundarins í N-Kóreu til að fylgja eftir niðurstöðum Singapúr-fundarins sem Trump sagði að breytt hefði stöðu öryggismála enda ætlað Kim Jong-un að hverfa frá kjarnorkuvopnavæðingu sinni.

Pompeo dró upp jákvæða mynd af niðurstöðu fundarins núna en Kim Yong Col, háttsettur viðmælandi hans af hálfu N-Kóreu, var neikvæðari í afstöðu sinni.

Í tilkynningu utanríkisráðuneytis N-Kóreu sagði: „Viðmót og afstaða Bandaríkjamanna í viðræðum háttsettu embættismannanna á föstudaginn og laugardaginn var ákaflega hörmuleg.“

Stjórnin í N-Kóreu sakar Bandaríkjastjórn um að reyna að neyða sig til einhliða afsals á kjarnorkuvopnum. Viðræðurnar við Pompeo hefðu vakið „miklar áhyggjur“ þar sem þær hefðu lagt grunn að „hættulegri stöðu sem kynni að hrófla við vilja okkar til kjarnorkuafvopnunar sem var skýr“.

Fyrir brottför sína frá Pyongyang laugardaginn 7. júlí sagði Pompeo að viðræðurnar hefðu verið „árangursríkar“ og farið fram í „góðri trú“ og „verulega“ hefði miðað á sumum sviðum.

Hann sagði að bandarískir og kóreskir embættismenn mundu hittast 12. júlí á landamærum Suður- og Norður-Kóreu til að ræða eyðileggingu á tilraunasvæði N-Kóreumanna fyrir eldflaugar og heimflutning líkamsleifa bandarískra hermanna sem féllu í Kóreustríðinu 1950-53.

Áður en Pompeo fór til þessara viðræðna höfðu þær fréttir borist að bandarískar leyniþjónustustofnanir hefðu „sannanir“ fyrir því að N-Kóreustjórn héldi áfram að efla getu sína til vopnaframleiðslu.

Bandaríska sjónvarpsstöðin NBC vitnaði nýlega í ónafngreinda bandaríska embættismenn sem sögðu að bandarískar leyniþjónustustofnanir teldu að framleiðsla á eldsneyti fyrir kjarnavopn hefði aukist í N-Kóreu á fjölda leynilegra staða og reynt væri að fela þetta í von um að boðuð afvopnun leiddi til eftirgjafar af hálfu Bandaríkjastjórnar við framkvæmd refsiaðgerða gegn N-Kóreu.

Haft var eftir bandarískum embættismanni að það lægi „algjörlega fyrir“ að N-Kóreumenn reyndu að „blekkja“ Bandaríkjamenn.

 

 

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …