Home / Fréttir / Myrkvuð skip við Nord Stream fyrir skemmdarverk

Myrkvuð skip við Nord Stream fyrir skemmdarverk

Mynd frá 27. september 2022 sýnir gas á Eystrasalti,

Gervihnattarmyndir sýna að tvö svonefnd myrkvuð skip sigla í nágrenni Nord Stream gasleiðslanna í Eystrasalti skömmu áður en þær sprungu 26. september 2022.

Þetta kemur fram í bandaríska tæknitímaritinu Wired sem hefur greint gervihnattarmyndir frá SpaceKnow sem teknar voru yfir Eystrasalti dagana fyrir 28. september þegar leki varð á rússnesku gasleiðslunum vegna sprenginga.

Stjórnvöld margra ríkja segja að um skemmdarverk hafi verið að ræða en það er ekki ljóst hverjir stóðu að baki því.

Í Wired segir að myrkvuðu skipin hafi siglt nokkra kílómetra frá Nord Stream 2 skömmu fyrir sprengingarnar. Skip eru sögð myrkvuð þegar slökkt er á sjálfvirkum sendibúnaði (AIS) um ferðir einstakra skipa.

„Slökkt var á sendunum svo að ekki bárust neinar upplýsingar um ferðir þeirra og reynt var að halda upplýsingum um stað skipanna og annað leyndum fyrir öðrum,“ segir Jerry Javornicky, forstjóri SpaceKnows við Wired.

Rannsókn á myndunum sýnir að skipin eru 90 til 130 m löng.

Fleiri skip en þessi tvö sigldu á þessum slóðum á svipuðum tíma. Á myndum SpaceKnows má sjá 25 skip en aðeins tvö þeirra höfðu slökkt á AIS-sendunum.

Öllum skipum er skylt að nota AIS-kerfið sem skráir nafn skipsins, stað þess, hraða, stefnu og aðrar upplýsingar. Kerfið á að draga úr líkum á árekstrum á hafi úti.

Sérfræðingar frá nokkrum löndum vinna að rannsókninni á sprengingunum við Nord Stream leiðslurnar og starfa sumir þeirra á vegum NATO.

Javornicky segir að SpaceKnow hafi afhent NATO gögn sín og bandalagið óski eftir meiri upplýsingum.

Rússar saka Breta um að sérsveitir þeirra hafi unnið skemmdarverkin á gasleiðslunum sem eru að mestu í eigu rússneska fyrirtækisins Gazprom. Bretar hafna þessum ásökunum.

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …