Bandaríska herstjórnin í Evrópu hefur birt opinberlega ljósmyndir sem teknar voru úr bandarískri eftirlitsflugvél yfir Eystrasalti þegar rússnesk orrustuþota flaug í veg fyrir hana. Hér birtast þrjár myndir af rússnesku vélinni.
Atvikið varð mánudaginn 19. júní og sýna myndirnar að svo stutt var á milli vélanna að greina má rússneska flugmanninn í orrustuþotunni. Segir í frétt CNN um atvikið að rússneska vélin hafi einu sinni ekki verið nema í 1,5 m fjarlægð frá bandarísku vélinni.
„Atvikið skapaði greinilega hættu vegna nálægðar vélarinnar, hraða og lélegrar stjórnar,“ sagði talsmaður Bandaríkjahers við CNN. Myndirnar sýna að rússneska vélin var búin vopnum.
Rússneska orrustuþotan var af gerðinni SU-27. Bandaríska vélin var eftirlitsflugvél, Boeing RC-135 eftirlitsflugvél. Bandaríkjaher notar þessar vélar til að aðstoða samstarfsaðila sína heima fyrir og á alþjóðavettvangi við upplýsingaöflun.
Rússar saka flugmann bandarísku eftirlitsvélarinnar um að hafa beygt í áttina að rússnesku orrustuþotunni auk þess sem tvær bandarískar eftirlitsflugvélar hafi verið þarna næstum samtímis.
Talsmaður bandaríska varnarmálaráðuneytisins segir að undantekning sé að slík atvik gerist. Almennt séu samskipti Bandaríkjamanna og Rússa friðsamleg í háloftunum. Hann tók fram að bandarísku flugmennirnir hefðu ekki ögrað Rússum á nokkurn hátt í þessu tilviki.
Frá því í byrjun júní hafa rúmlega 30 „snertingar“ verið milli Rússa og Bandaríkjamanna á sjó og í lofti á Eystrasalti að sögn bandarísks heimildarmanns CNN.