Home / Fréttir / Múrmansk: Ný herflotaskóli settur við upphaf kennsluárs

Múrmansk: Ný herflotaskóli settur við upphaf kennsluárs

Nemendur í rússneska flotaskólanum eru 12 ára eða eldri.
Nemendur í rússneska flotaskólanum eru 12 ára eða eldri.

Við upphaf skólaársins í Rússlandi, föstudaginn 1. september, tók nýr skóli til starfa í Múrmansk á norðurströnd Rússlands, við Kóla-skagann, skammt frá landamærum Noregs. Yfirmaður rússneska herflotans, Vladimir Koroljov, setti skólann, nýja Nakhimov flotaskólann. Við hlið hans voru aðrir háttsettir menn flotans en fyrir framan þá stóðu fyrstu nemendur skólans, 240 að tölu. Þeir klæddust einkennisbúningi flotans og var raðað að hætti hermanna.

„Hér á þessum stað þar sem þið finnið heimskautavindana leika um ykkur, þar sem öflugasti floti Rússlands, Norðurflotinn, á heimahöfn, gangið þið í Nakhimov bræðralagið, framtíðarelítu rússneska herflotans,“ sagði Koroljov í setningarræðunni og einnig:

„Hér við strönd Kóla-flóa og Barentshafs hefjið þið þátttöku ykkar í starfi herflotans, ég er þess fullviss að margir ykkar verða framtíðarsigurvegarar okkar á Norðurskautinu og í undirdjúpunum, herrar kjarnorkuafls og stjórnendur eldflaugaskota.“

Fyrsti Nakhimov skólinn var stofnaður í St. Pétursborg árið 1944. Pavel Stepanovich Nakhimov (1802-1855) er einn frægasti flotaforingi Rússa. Hans er helst minnst vegna forystu fyrir her Rússa til lands og sjávar í umsátrinu um Sevastopol í Krímstyrjöldinni árið 1853. Í Sevastopol er Nakhimov flotaskóli og nú einnig í Múrmansk.

Nýi skólinn í Múrmansk var byggður á mettíma. Nefnd frá rússneska varnarmálaráðuneytinu heimsótti Múrmansk í september 2016 og kannaði fjóra mismunandi staði undir skólann. Smíði hans hófst formlega í seinni hluta febrúar 2017 og er kennsla hafin í skólahúsinu.

Starf skólans miðast við að þaðan útskrifist einstaklingar sem geti tekist á við öll störf innan herflotans og í stöðvum hans. Sérstakur bekkur verður fyrir stúlkur.

Yngstu nemendurnir eru 12 ára. Námið tekur sjö ár. Nemendur búa innan skólasvæðisins og stunda nám sitt hjá kennara sex daga vikunnar.

Þegar skólasvæðið er fullbyggt verður þar kennsluhúsnæði, bátahöfn, íþróttahús og aðstaða, mötuneyti, svefnskálar og hyllingar- og göngusvæði. Gert er ráð fyrir 560 nemendum.

Heimild: Barents Observer

 

 

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …