Home / Fréttir / Múrmanask svarar Akureyri í sömu mynt

Múrmanask svarar Akureyri í sömu mynt

Frá Múrmansk (Thomas Nilsen / The Independent Barents Observer)

Bæjarstjórn Akureyrar sleit vinabæjarsamstarfi við Múrmansk í Rússlandi 15. nóvember 2022 með 11. samhljóða atkvæðum. Ákvörðunin var tekin vegna innrásar rússneskra stjórnvalda í Úkraínu. Stjórnvöld í Múrmansk svöruðu í sömu mynt og slitu sambandinu við Akureyri með 23 samhljóða atkvæðum fimmtudaginn 15. desember.

Rússneska fréttastofan Interfax skýrði frá ákvörðuninni og sagði að stofnað hefði verið til vinabæjasambandsins árið 1994. Þar er vitnað í borgarfulltrúa sem segir að borist hafi bréf frá bæjarstjóra Akureyrar dags. 28. nóvember þar sem tilkynnt hafi verið um slit vinabæjasambandsins. Því væri um gagnkvæma ákvörðun stjórnvalda í Múrmansk að ræða.

Bæjarstjórn Akureyrar ákvað einnig að hætta aðild að samtökunum Northern Forum. Þar hafa setið fulltrúar frá héruðum í Kanada, Bandaríkjunum, Finnlandi, Noregi og Rússlandi sagði Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri við Akureyri.net. 16. nóvember. Þetta væru nú í raun aðeins samtök sveitarfélaga í Rússlandi. Samtökin hefðu verið merkileg í upphafi og átt áheyrnarfulltrúa í Norðurskautsráðinu en Akureyri ætti ekkert sameiginlegt með þessum hópi lengur. Þá hefði vinabæjasambandið ekki verið virkt í mörg ár.

Á norsku vefsíðunni BarentsObserver sagði 15. desember að Akureyri væri ekki fyrsti bærinn á norðurslóðum til að slíta vinabæjatengsl við Múrmansk. Rovaniemi í Finnlandi hefði slitið tengslin skömmu eftir innrás Rússa í Úkraínu 24. febrúar 2022. Þá ákvað bæjarstjórn Rovainiemi jafnframt að láta 10 evrur fyrir hvern íbúa bæjarins renna til Úkraínu, alls 70.000 evrur.

Luleå í norðurhluta Svíþjóðar sleit sambandinu við Múrmansk í september 2022 og Tromsø í Noregi í október en þar var stofnað til vinabæjasambands við Múrmansk árið 1972.

Skoða einnig

Spenna í Íran á eins ár minningardegi Amini sem lögregla myrti vegna skorts á höfuðslæðu

Íranir heima og erlendis minnast þess laugardaginn 16. september að eitt ár er liðið frá …