Home / Fréttir / Murkowski vill að Rússum sé mætt með afli í norðri

Murkowski vill að Rússum sé mætt með afli í norðri

Lisa Murkowski öldungadeilkdarþingmaður í Tromsø.

Lisa Murkowski, öldungadeildarþingmaður repúblikana frá Alaska, er í hópi þeirra sem sækja Arctic Frontier ráðstefnuna í Tromsø í Norður-Noregi. Rætt er við hana á norsku vefsíðunni High North News fimmtudaginn 2. febrúar.

Murkowski leggur áherslu á mikilvægi þess að standa sterkt á móti Rússum i norðri, einkum þegar NATO búi sig undir að taka á móti Svíum og Finnum. Við það verði sjö af átta aðildarríkjum Norðurskautsráðsins í NATO.

„Rússar hafa ekki beint athygli sinni frá norðurslóðum,“ segir öldungadeildarþingmaðurinn „við sjáum margvísleg rússnesk umsvif hvort heldur í lofti eða á láði. Og það er raunar ekki langt síðan við sáum ekki aðeins rússnesk skip – þau er ekki sjaldséð eins og við vitum – heldur einnig það sem er óvenjulegra og annars eðlis, kínversk skip fylgdu þeim rússnesku. Það gerðist nú í fyrsta skipti.“

Þarna vísar hún til þess að bandaríska strandgæslan kom auga á þrjú kínversk og fjögur rússnesk herskip, þar á meðal tundurspilli, saman í hópi á Beringshafi í september 2022.

Þetta sýni að hvað sem líði stríðinu í Úkraínu láti Rússar ekki dreigan síga á norðurslóðum.

„Við verðum að sýna árvekni gagnvart nágranna Noregs í norðri með hliðsjón af þeim ósköpum sem gerast í Úkraínu. Ég held að nauðsynlegt sé að minna hann á styrk okkar,“ segir Murkowski.

Hún segir að fyrir mánuði hafi Bandaríkjaþing samþykkt ný lög sem snúa að hernaði á norðurslóðum í því skyni að efla bandarískan viðbúnað þar. Það snúi ekki aðeins að hernaðarlegri þjálfun við norðlægar aðstæður heldur mörgu öðru sem snerti staðhætti þar.

Minnt er á að árum saman hafi bandarískir hermenn komið reglulega í æfinga- og þjálfunaferðir til Noregs.

„Þetta er ekki aðeins mikilvægt [fyrir hermennina] heldur einnig mikilvæg skilaboð til Rússa og Kínverja.“

Í fyrra ræddi hún við tvo Rússa sem flúðu frá austurströnd Rússlands og komust á litlum mótorbáti til Alaska. Þeir upplýstu hana um að þeir hefðu ekki aðeins flúið vegna þess að það átti að senda þá til vígvallarins í Úkraínu heldur einnig vegna þess að rússnesk yfirvöld sýndu heimamönnum á þessum slóðum sérstaka óvild.

Þetta hefði hún ekki áður vitað en minnti hana á að atburðir af þessu tagi gerðust ekki í neinni órafjarlægð frá Bandaríkjunum.

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …