
Fjöldi þeirra sem týna lífi á leið sinni til Evrópu hefur margfaldast undanfarna sjö mánuði og næstum tvöfaldast miðað við í fyrra. Rúmleg 3.100 hafa farist á þessu ári á Miðjarðarhafi miðað við um 1.900 á sama tíma 2015. Flestir drukknuðu á leið frá strönd Norður-Afríku til Ítalíu.
Alþjóðastofnunin vegna fólksflutninga (International Organisation for Migration (IOM)) í Genf segir að aðeins nokkru fleiri komi nú sjóleiðis til Evrópu miðað við sama tímabil árið 2015.
Í ár hafa rúmlega 250.000 manns komið þessa leið en voru um 220.000 í fyrra. Um 94.000 komu til Ítalíu og voru margir þeirra frá stöðum eins og Erítreu, Nígeríu og Súdan. Hinir, einkum frá Sýrlandi, komu til Grikklands.
Þegar leitað var skýringa hjá Landamæra- og strandgæslu Evrópu á fjölgun þeirra sem farast í sjóslysum. Var talið að það mætti rekja til þess að fólks-smyglarar settu fleiri um borð í gúmmíbáta en áður.
„Við höfum séð að mun fleira fólk er um borð í gúmmíbátunum en áður,“ sagði Ewa Moncure, upplýsingafulltrúi stofnunarinnar við vefsíðuna EUobserver í Brussel. Hún sagði einnig að gúmmíbátarnir væru minni en áður.
Nú er jafnvel 100 manns raðað um borð í 10 til 12 m langan gúmmíbát. Floti á vegum ESB hefur tekist á við fólks-smyglarana frá því í október 2015 og gert 223 báta þeirra upptæka. Þá hafa 82 menn grunaðir um smygl verið afhentir ítölsku lögreglunni.
Í ESB-flotanum eru fimm skip. Mánudaginn 1. ágúst átti hann hlut að björgun 1.800 manna skammt undan strönd Líbíu. Flotinn hefur tekið þátt í 136 björgunaraðgerðum. Vegna beinnar þátttöku hans hefur rúmlega 21.000 mannslífum verið bjargað, þá hefur óbein þátttaka flotans leitt til björgunar 35.000 mannslífa að auki.
Upplýsingafulltrúi ESB sagði við EUobserver að á árunum 2015 og 2016 hefðu aðgerðir undir merkjum ESB stuðlað að því að bjarga lífi meira en 240.000 manns á Miðjarðarhafi.
Ítalska strandgæslan sagði mánudaginn 1. ágúst að undanfarna fimm daga hefðu starfsmenn hennar bjargað rúmlega 8.300 manns.
Færri reyna nú að fara yfir Eyjahaf frá Tyrklandi til Grikklands en áður. Má rekja það til samnings milli Tyrkja og ESB frá mars 2016. Nú koma að meðaltali 89 manns þessa leið á dag en þeir voru um 1.700 á dag þegar mest var í fyrra.
IOM segir hins vegar að straumurinn frá Tyrklandi hafi aukist eftir misheppnuðu valdaránstilraunina þar 15. júlí 2016. Dagana 14. til 22. júlí fóru 375 frá Tyrklandi um Eyjahaf til Grikklands en 790 dagana 21. til 28. júlí, 111% aukning.
Heimild: EUobserver.