Home / Fréttir / Mueller-rannsóknarskýrslan birt – Trump kampakátur

Mueller-rannsóknarskýrslan birt – Trump kampakátur

57502890_10158447286169899_8903531762261426176_n

William Barr, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, og Rod Rosenstein vara-dómsmálaráðherra sem hafði umsjón með 22 mánaða störfum sérstaks saksóknara, Roberts Muellers, og manna hans kynntu fimmtudaginn 18. apríl 448 bls. rannsóknarskýrslu.

Í skýrslunni er fjallað um það hvernig Rússar blönduðu sér í bandarísku kosningabaráttuna árið 2016, hvort kosningastjórn Donalds Trumps hafi átt í leynimakki við Rússa og hvort forsetinn hafi reynt að hindra framgang réttvísinnar.

Barr dómsmálaráðherra sagði rannsóknina ekki hafa leitt í ljós að kosningastjórn Trumps hefði „bruggað launráð eða stillt saman strengi með rússneskum stjórnvöldum þegar þau skiptu sér af kosningunum“.

Barr sagði að Trump hefði verið nóg boðið og hann hefði reiðst vegna rannsóknarinnar en forsetaembættið hefði starfað að öllu leyti með rannsakendum.

Barr sagði að Mueller hefði rannsakað 10 tilvik þar sem til álita kom hvort Trump hefði hindrað framgang réttvísinnar en að sögn dómsmálaráðherrans liggja „ekki fyrir nægar sannanir frá sérstökum saksóknara til að leiða líkur að því að forsetinn hafi gerst sekur um að hindra framgang réttvísinnar“.

Fjölmiðlar fluttu stöðugar fréttir um efni skýrslunnar eftir að hún birtist. Mueller segir að Trump hafi reynt að sölsa forræði rannsóknarinnar undir sig og að ýta Mueller til hliðar. Þá kemur fram að Donald Trump hafi brugðist illa við þegar Jeff Sessions, þáv. dómsmálaráðherra, sagði honum í mai 2017 að hann hefði lýst sig vanhæfan til að leiða rannsókn vegna Trumps en Rosenstein, vara-dómsmálaráðherra, hefði skipað Robert Mueller sem sérstakan saksóknara. Sagt er að Trump hafi gripið til blótsyrða og síðan sagt: „Guð minn góður. Þetta er hroðalegt. Þetta eru endalok mín sem forseta.“

Trump var sigri hrósandi 18. apríl þegar skýrslan hafði verið birt og telur hann sig hafa pálmann í höndunum. Demókratar með meirihluta í fulltrúadeild Bandaríkjaþings ætla að beita honum til að herja á forsetann með skýrsluna að vopni.

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …