Home / Fréttir / Mótmælt í Hvíta-Íslandi – kosið í Rússlandi

Mótmælt í Hvíta-Íslandi – kosið í Rússlandi

Lögregla tekur á mótmælendum í Minsk.
Lögregla tekur á mótmælendum í Minsk.

Reuters-fréttastofan segir sunnudaginn 13. september að minnst 100.000 mótmælendur hafi verið á götum Minsk, höfuðborgar Hvíta-Rússlands þann dag. Rússneska fréttastofan Interfax vitnar í heimildarmenn í hvítrússneska innanríkisráðuneytinu sem segja að um 250 hafi verið handteknir. Til mótmælanna var stofnað þegar dregur að viðræðum milli Alexanders Lukasjenko, einræðisherra í Hvíta-Rússlandi, og Vladimirs Pútins Rússlandsforseta.

Sunnudaginn 13. september hófust héraðskosningar í Rússlandi. Vangaveltur eru um að ástandið í Hvíta-Rússlandi kunni að hafa áhrif á rússneska kjósendur og hvaða mat verður lagt á opinberar tölur um úrslit kosninganna. Undirrót mótmælanna í Hvíta-Rússlandi er óánægja með tölurnar sem birtar voru um 80% fylgi Lukasjenkos í forsetakosningunum þar 9. ágúst 2020. Telja andstæðingar Lukasjenskos um augljóst kosningasvindl að ræða til að tryggja honum sigur í sjöttu forsetakosningunum síðan hann komst til valda 1994.

Svetlana Tsikhanouskaja sem bauð sig fram gegn Lukasjenko og sögð er hafa fengið 10% atkvæða er landflótta í Litháen. Aðrir af forystumönnum andstæðinga Lukasjenkos hafa annað hvort verið teknir fastir eða þeir hafa flúið land.

Vladimir Pútin lofað Lukasjenko stuðningi þegar mótmælin hófust. Opinberlega hefur hann ekki birst og kann Pútin að halda að sér höndum þar til úrslit rússnesku héraðskosninganna hafa verið kynnt.

Í aðdraganda rússnesku héraðskosninganna var gerð eiturárás á Alexei Navalníj, helsta andstæðing Pútins. Var hann fluttur í neyðarflugi til Berlínar 22. ágúst þar sem læknum í Charité-sjúkrahúsinu tókst að bjarga lífi hans og má hann nú mæla eftir að hafa verið haldið sofandi dögum saman.

 

Skoða einnig

Sænski forsætisráðherrann: Útilokar ekki kjarnavopn í stríði

Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, segir víðtæka samstöðu um að banna kjarnavopn á sænsku landsvæði á …