Home / Fréttir / Mótmælin í Khabarovsk hafa staðið í þrjár vikur – Pútin aðhefst ekkert

Mótmælin í Khabarovsk hafa staðið í þrjár vikur – Pútin aðhefst ekkert

Við viljum fá Sergej Furgal aftur stendur á þessu spjaldi.
Við viljum fá Sergej Furgal aftur stendur á þessu spjaldi.

Mótmælin í borginni í Khabarovsk í austasta hluta Rússlands hafa nú staðið í þrjár vikur. Þau hófust þegar Vladimir Pútin Rússlandsforseti lét handtaka vinsælan héraðsstjóra, Sergej Furgal, fimmtudaginn 9. júlí og flytja hann til Moskvu.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Pútin og menn hans setja héraðsstjóra til hliðar af því að vinsældir hans vaxa þeim í augum. Rússar sýna slíku valdabrölti hins vegar minni skilning nú en oft áður og efna því til mótmælaaðgerða.

Dmitríj Peskov, talsmaður valdhafanna í Kreml, segir við ríkisfréttastofuna Tass að mótmælendurnir sýni tilfinningasemi og slagorð þeirra einkennist af „tískubundinni hálfvelgju“.

Sérfræðingar í málefnum Rússlands minna á að höfuðmarkmið Pútins sé að sama skuli yfir alla ganga í landinu og þess vegna verði að grípa fram fyrir hendur á þeim sem njóti „of mikilla“ héraðsbundinna vinsælda. Verði gerð undantekning af hálfu Kremlverja óttist þeir að margbreytileiki þjóðarinnar leiði til upplausnar.

Aðeins nokkrar vikur eru liðnar frá því að Pútin knúði fram samþykki við því að hann gæti setið áfram í 16 ár sem forseti þegar þessu kjörtímabili lýkur 2024. Mörgum finnst nóg um þetta í Rússlandi auk þess sem aðför forsetans að eftirlaunakerfi þjóðarinnar árið 2018 skilur eftir sig ógróin sár. Þá hefur COVID-19-faraldurinn magnað almenna óánægju samhliða versnandi efnahag og atvinnuleysi.

Það er varla unnt að komast austar í Rússlandi en til Khabarovsk.
Það er varla unnt að komast austar í Rússlandi en til Khabarovsk.

Innan Rússlands ráðast mótmæli oft af öðru en andstöðu við valdhafana í Kreml og þess vegna vekur athygli hve mörg spjaldanna sem borin eru í þeirri órafjarlægð frá Moskvu sem Khabarovsk er skuli beint gegn Pútin sjálfum.

„Ríkisstjórnin [í Moskvu] lítur ekki á okkur sem fólk. Við erum úrhrök í þeirr augum,“ sagði kona í nokkur þúsund manna mótmælendahópnum laugardaginn 1. ágúst.

Í göngunni 1. ágúst mátti heyra fólk hrópa: Frelsi! og Pútin segðu af þér! Á einu spjaldi stóð: Rússland án Pútins. Þá hrópuðu aðrir: Við þurfum stuðning allra í landinu! og veittust að ríkisreknum fjölmiðlum fyrir að þegja um mótmælaaðgerðirnar: Skömm sé rússneskum miðlum! var hrópað.

Borgaryfirvöld töldu að um 3.500 manns hefðu tekið þátt í aðgerðunum en í sumum heimamiðlum var sagt að rúmlega 10.000 manns hefðu verið á götunum, aðeins færri en oft áður.

Forsetinn bregst illa við öllum mótmælum gegn sér og undanfarin ár hefur hann látið lögregluna snúast gegn þeim af meiri hörku en áður. Með vísan til þess vekur athygli og nokkra undrun að ekki skuli hafa verið gripið til skipulegra aðgerða til að binda enda á aðgerðirnar í Khabarovsk.

Á sama tíma og þetta gerist í austri magnast spenna milli stjórnvalda í Rússlandi og Hvíta-Rússlandi í vestri þar sem forsetakosningar verða 9. ágúst. Í vikunni voru 33 Rússar handteknir skammt frá Minsk, höfuðborg Hvíta-Rússlands, og eru þeir sakaðir um að hafa ætlað að stofna til vandræða í því skyni að spilla fyrir kosningunum. Í Kreml er þess krafist að mönnunum verði sleppt.

 

 

 

 

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …