Home / Fréttir / Mótmæli í Íran harðna – dreifð um allt landið

Mótmæli í Íran harðna – dreifð um allt landið

Myndin er tekin laugardag 30. desember og sýnir námsmenn og lögreglu í Teheran.
Myndin er tekin laugardag 30. desember og sýnir námsmenn og lögreglu í Teheran.

Þúsundir mótmælenda streymdu út á götur og torg í Íran sunnudaginn 31. desember, fjórða daginn í röð. Til átaka hefur komið í Teheran, höfuðborg Írans, milli mótmælenda og lögreglu. Þá hafa stuðningsmenn klerkastjórnar landsins einnig farið í göngur til stuðnings stjórnvöldum.

Fréttir eru óljósar af því hve víðtæk mótmælin eru vegna fréttabanns innan lands. Af hálfu stjórnvalda hafa viðbrögðin harðnað stig af stigi. Byltingarverðirnir, herdeildir á vegum klerkastjórnarinnar, hafa verið virkjaðir og þaðan berast boð um að annað hvort haldi almenningur sig til hlés eða hann kynntist „stálhnefa“ varðliðanna.

Ekki hefur komið til óeirða af þessu tagi í landinu síðan árið 2009 þegar úrslitum forsetakosninga var mótmælt. Mótmælendur bera borða með slagorðum gegn stjórnvöldum og æðsta klerki landsins, Ayatollah Ali Khamenei. Það þykir ganga guðlasti næst og þess vegna kunna byltingarverðirnir að skerast í leikinn að eigin sögn.

Hassan Rouhani, forseti Írans, er gagnrýndur fyrir að hafa ekki hrundið af stað breytingum á hagkerfi landsins eins og hann lofaði áður en hann komst til valda árið 2013.

Opinberar hagtölur sýna 10% verðbólgu en almenningur hefur orðið var við mun meiri hækkun matvæla undanfarna mánuði. Atvinnuleysi er mikið, einkum meðal ungs fólks. Ríkisstjórnin kynnti nýlega niðurskurð útgjalda til velferðarmála og hækkun eldsneytisverðs.

Þá beinast mótmælin einnig gegn spillingu í stjórnkerfi landsins og að aðild herafla þjóðarinnar að átökum í Mið-Austurlöndum auk fjárhagslegs og hernaðarlegs stuðnings við Bashar Assad, forseta Sýrlands, og sveitir sjíta-múslima, Hezbollah í Líbanon og Hamas í Palestínu.

Á myndskeiðum sem birst hafa á samfélagsmiðlum má sjá stjórnarandstæðinga hrópa: Frelsið pólitíska fanga! og Drepum einræðisherrann! og er þar greinilega vísað til Khameneis.

Hálf-opinberir fjölmiðlar staðfestu að myndskeið á samfélagsmiðlum sýndu árás á ráðhús í Teheran að kvöldi laugardags 30. desember. Á myndskeiðum sést einnig þegar ráðist er á banka og stjórnarbyggingar annars staðar í landinu.

Að morgni sunnudags 31. desember sagði Abdolrahman Rahmani Fazli innanríkisráðherra í ríkissjónvarpinu að þeir yrðu látnir gjalda þess sem réðust á opinberar eignir eða brytu lög á annan hátt. „Það verður fast tekið á vaxandi ofbeldi, ótta og hryðjuverkum,“ sagði ráðherrann.

Á óstaðfestum myndskeiðum hafa mótmælendur sést rífa niður skilti með myndum af æðsta leiðtoga landsins Ayatollah Ali Khamenei og Qassem Soleimani hershöfðingja, æðsta stjórnanda byltingarvarðanna.

Að minnsta kosti tveir almennir borgarar hafa fallið í bænum Dorud í vesturhluta Íran. Nokkrir tugir manna hafa verið handteknir.

Í ár hefur nokkrum sinnum komið til minniháttar mótmæla í nokkrum borgum og bæjum. Þar hafa einstaklingar sem töpuðu fé við fall banka og sparisjóða verið fremstir í flokki.

Mótmælin nú koma eins og þruma úr heiðskíru lofti. Þau hófust án nokkurrar sérstakrar ástæðu fimmtudaginn 28. desember í borginni Mashhad, annarri stærstu borg Írans og mikilvægum pílagrímastað sjíta-múslima í norðaustur hluta landsins.

Þaðan dreifðust mótmælin til nokkurra tuga bæja og borga. Það bárust meira að segja fréttir af mótmælum í Qom, miðstöð klerkaveldisins.

Sérfræðingar í írönskum málefnum segja að ef til vill hafi harðlínumenn úr röðum múslima skipulagt mótmæli gegn Rouhani forseta en misst stjórn á þeim með þessum afleiðingum.

Eshaq Jahangiri, varaforseti, náinn bandamaður Rouhanis, gaf einnig til kynna að harðlínumenn meðal ráðamanna hefðu skipulagt mótmælin.

Fréttaskýrendur segja að mótmælaaðgerðirnar séu einstæðar vegna þess hve þær ná til stórs hluta landsins en séu ekki aðeins bundnar við Teheran. Þá virðist fátækir íbúar samfélagsins láta mest að sér kveða, illa haldnir vegna atvinnuleysis, verðhækkana og fjármálahneyksla.

Til þessa hefur enginn forystumaður mótmælenda gengið fram fyrir skjöldu. Að mótmælunum árið 2009 stóð Græna hreyfingin og stjórnuðu Mir Hossein Mousavi, fyrrverandi forsætisráðherra og Mehdi Karroubi, fyrrverandi þingforseti, henni. Þeir sitja báðir enn í stofufangelsi.

Rouhani var endurkjörinn forseti á árinu 2017. Árið 2015 stóð hann að samkomulagi við stórveldin um takmörkun á kjarnorkuvinnslu Írana gegn afléttingu viðskiptabanns á Íran. Hann er hægfara múslimi í samanburði við klerkana sem eiga síðasta orð um stjórn og stefnu þjóðarinnar. Almenningur telur kjarnorku-samkomulagið ekki hafa bætt hag sinn á þann veg sem vænst var.

 

 

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …