Home / Fréttir / Mótmæli gulvestunga skaða efnahag Frakka illilega

Mótmæli gulvestunga skaða efnahag Frakka illilega

 

Franskir lögreglumenn leggja gulvestung.
Franskir lögreglumenn leggja gulvestung.

Franski fjármálaráðherrann Bruno Le Maire segir að mótmæli gulvestunga séu „hörmuleg“ fyrir efnahag Frakka. Laugardaginn 8. desember var efnt til fjórðu helgarmótmælanna í röð í landinu. Segir innanríkisráðuneytið að 136.000 hafi mótmælt um allt Frakkland.

Um 120.000 lögreglumenn og slökkviliðsmenn gættu lífs og eigna borgaranna en tjónið varð engu að síður mun meira en í fyrri mótmælaaðgerðum sem eiga rót í andstöðu við boðaða hækkun á eldsneytissköttum.

Fjöldi mótmælenda 8. desember var álíka mikill og laugardaginn 1. desember. Hafði ekkert að segja að ríkisstjórnin hefði boðað frestun á hækkun skattanna.

Ráðuneytið sagði að 264 hefðu slasast, þar af 39 lögreglumenn. Tæplega 2.000 voru handteknir í Frakklandi öllu og rúmlega 1.700 settir í gæsluvarðhald.

Bruno Le Maire lýsti ástandinu sem „krísu“ fyrir þjóðfélagið og lýðræðislega stjórnarhætti. „Þetta er hörmulegt fyrir viðskiptalífið, þetta er hörmulegt fyrir efnahag okkar,“ sagði ráðherrann þegar hann heimsótti verslanir sem höfðu orðið fyrir tjóni vegna mótmælanna.

Um 10.000 mótmælendur gengu sérstaklega illa fram í París þar sem þeir brutu glugga, kveiktu í bílum og stálu úr verslunum.

Emmanuel Greogorie varaborgarstjóri sagði í útvarpsviðtali að tjónið nú væri miklu meira en fyrir viku, nú hefðu mótmælendur dreift sér meira um borgina en áður.

Jean-Yves Le Drian, utanríkisráðherra Frakka, brást reiður við afskiptum Donalds Trumps Bandaríkjaforseta sem lét að því liggja á Twitter laugardaginn 8. desember að Parísarsamkomulagið um loftslagsmál væri undirrót andófs almennings.

„Ég segi þetta við Donald Trump og franski forsetinn segir það einnig: láttu þjóð okkar í friði,“ sagði Le Drian.

Boðað hefur verið að Emmanuel Macron forseti ávarpi frönsku þjóðina að kvöldi mánudags 10. desember. Krafan um að hann segi af sér setur svip á mótmælin.

Forsetinn ætlar að hitta forystumenn launþega og atvinnurekenda að morgni mánudags 10. desember. Hann hefur látið lítið fyrir sér fara eftir að mótmælin hófust.

Í blaðinu Le Parisien sagði að um 50 ökutæki hefðu orðið eldi að bráð og ráðist hefði verið á tugi verslana og stolið úr sumum þeirra. Talið er að tjónið nemi milljónum evra.

Samtök franskra smásala sögðu Reuters-fréttastofunni föstudaginn 7. desember félagsmenn þeirra hefðu tapað um milljarði evra frá því að mótmælin hófust 17. nóvember.

Fyrir mótmæli síðustu helgar sagði Le Maire að viðskipti veitingastaða hefðu minnkað um 20% til 50%.

François Asselin, formaður Samtaka lítilla og meðalstórra fyrirtækja, sagði við Journal du Dimanche að í heild kynnu mótmælin að kosta félagsmenn sína 10 milljarða evra.

 

 

Skoða einnig

Úkraínuher fær F-16-þotur að lokinni þjálfun flugmanna

Bandaríkjastjórn hefur heimilað stjórnvöldum bandalagsríkja sinna að gefa Úkraínumönnum F-16-orrustuþotur. Þar með aukast líkur á …