
Mótmælendur lögðu þinghúsið í Hong Kong undir sig síðdegis mánudaginn 1. júlí og dvöldust innan dyra í þrjár klukkustundir áður en þeir hurfu á braut.
Eftir miðnætti á staðartíma (kl. 16.00 að íslenskum tíma) lögðu hundruð lögreglumanna bygginguna undir sig eftir að hafa sagt mótmælendunum að hverfa á brott.
Tugir mótmælenda brutu styrkt öryggisgler og stunduðu veggjakrot innan dyra. Mótmælin eru gegn hertum tökum kínverska miðstjórnarvaldsins í borginni. Íbúar hennar vilja njóta áfram sama frelsis og þegar æðsta stjórn borgríkisins var í höndum Breta.
Eftir að mótmælendur höfðu brotið sér leið inn í þingsalinn voru myndir þar brotnar og nýlendufáni Breta settur á forsetapallinn.
Stjórn borgríkisins vill lögleiða heimild til að framselja afbrotamenn til stjórnvalda í Peking að kröfu þeirra. Mótmælin gegn þessum áformum hafa staðið í nokkrar vikur og er ekkert lát á þátttöku í þeim.
Eftir að stjórnin í Hong Kong fékk ekki við neitt ráðið var málinu ekki haldið áfram.
Á baráttuborða í þingsalnum stóð: Það eru engir uppreisnarseggir, aðeins harðstjórn!
Ríkisstjórnin krafðist þess „öfgafullu ofbeldinu“ yrði hætt tafarlaust. Vegna þess hefði verið fallið frá gerð allra breytingartillagna á frumvarpinu umdeilda um framsal einstaklinga í hendur stjórnvalda í Peking.
Mótmælin í Hong Kong mánudaginn 1. júli voru ekki aðeins bundin við þinghúsið. Þau voru víðar í tilefni af því að þennan dag árið 1997 afhentu Bretar borgina til kínverskra stjórnvalda með ákveðnum skilyrðum.
Talið er að um 190.000 manns hafi farið í friðsamlega göngu um miðborgina til að árétta andstöðu við sífellt minna frelsi í borginni. Þá var þess einnig krafist að Carrie Lam, yfirstjórnandi Hong Kong, segði af sér en hún er sökuð um undirlægjuhátt við Peking-valdið.
Þessi dagur er árlegur minningardagur margra íbúa Hong Kong vegna valdaafsals Breta. Spennan að þessu sinni er vegna þriggja vikna harðra mótmæla borgarbúa gegn ofríki kínverskra kommúnista.
Á það er bent af sérfræðingum í stjórnarháttum kínverskra kommúnista að vísvitandi hafi þeir viljað að mótmælendur kæmust inn í þinghúsið í von um að vekja með því reiði almennra borgara í garð mótmælenda svo að þeir rísi ekki upp af hneykslan þegar gengið verður milli bols og höfuðs á mótmælendum.